145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ætla mætti að við værum komin aftur til ársins 2001 því að „pop-up“ glugginn á að snúa aftur. Nefnd sem gerði úttekt á umfangi ólöglegs niðurhals leggur til að fjarskiptafyrirtæki láti notendur vita ef þeir eru að brjóta lögin á internetinu með „pop up“-glugga. Þetta kemur fram á vef innanríkisráðuneytisins.

Í ljósi þessa vilja Píratar vekja athygli á eftirfarandi: Ef netþjónustuveitendur geta skotið svona „pop up“-glugga inn í vefsíður hefur það nokkrar afleiðingar sem nauðsynlegt er að allir skilji:

a. Þeir geta þá skotið hverju sem er inn í vefsíðuna, enda er „code injection“ það hvernig spilliforrit eða vírusar virka mjög oft. Það mætti jafnvel segja að íslenska ríkið sé vísvitandi að veikja öryggi allra tölvunotenda á Íslandi.

b. Til að gera þetta þurfa þeir að stunda stöðugt eftirlit með allri netnotkun fólks og bera samskiptin saman við fyrir fram ákveðinn lista til að ákveða hvort skjóta eigi inn umræddum spillikóða sem birtir „pop up“-gluggann. Þetta er í einu og öllu sambærilegt því að njósna um öll samskipti allra, alltaf.

c. Annaðhvort er mjög létt að eyðileggja þetta úrræði ríkisins með einfaldri dulkóðun á borð við https, sem kæmi í veg fyrir að það gæti gert kóðainnskot, eða þá dulkóðunin verður afnumin með „maður í miðjunni“-árás sem gerir öryggi verksins að engu, gefur öðrum færi á að skjóta inn spillikóða og afnemur friðhelgi einkalífsins hvað varðar samskipti við síður. Þetta mundi einnig þýða að engin notkun netbanka eða vefverslana væri með nokkru móti örugg á Íslandi lengur.

Mig langar að beina því til innanríkisráðherra og annarra þingmanna, eins og hv. þm. Brynjars Níelssonar sem var í þeirri nefnd sem kom með þessar tillögur, að það væri verulega til bóta fyrir innanríkisráðuneytið að svona nefndir væru skipaðar fólki sem hefur hugmynd um það hvernig netið, tölvutækni og mannréttindi virka.

Stolið og stílfært frá Smára McCarthy.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna