145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

vátryggingastarfsemi.

396. mál
[14:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eins og sjá má rita ég undir þetta nefndarálit með fyrirvara. Ég geri engar athugasemdir við vinnu hv. efnahags- og viðskiptanefndar við þessa flóknu og afar tæknilegu innleiðingu á tilskipun um vátryggingastarfsemi. Ég benti á það í starfi nefndarinnar að ég hefði viljað sjá tekið á gagnkvæmum tryggingafélögum sem þekkjast víða annars staðar. Hins vegar voru þau ekki höfð með þegar fyrri gerð þessarar tilskipunar var innleidd. Það sem veldur mér áhyggjum hvað varðar innleiðinguna er að þar er í raun og veru ekki tekið á því hvernig við viljum nálgast vátryggingastarfsemi sem er ekki eingöngu á forsendum markaðarins á hverjum tíma heldur meira á forsendum neytenda.

Þessi sjónarmið hef ég viðrað í nefndinni og þau eru ástæðan fyrir fyrirvara mínum sem og sú staðreynd hve lítil áhrif við höfum á innleiðingu þessarar tilskipunar og sú gagnrýni sem hefur verið sett fram á vettvangi Evrópusambandsins um að þetta aukna regluverk þjóni í raun ekki sínu yfirlýsta markmiði. Það fór ég vel yfir í (Forseti hringir.) umræðu okkar um fjármálafyrirtækin. Það er sem sagt ástæðan fyrir fyrirvaranum. Ég geri enga athugasemd við vinnu nefndarinnar og mun af þessum sökum sitja hjá við afgreiðslu málsins.