145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

meðferð einkamála.

657. mál
[14:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ákvæðum laga um meðferð einkamála er varða gjafsókn. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi gjafsóknarmála og skilyrðum fyrir gjafsókn.

Í fyrsta lagi er lagt til að umsýsla gjafsóknarmála verði færð til sýslumanns. Í öðru lagi verði hlutverk gjafsóknarnefndar breytt úr því að veita umsögn um beiðni um gjafsókn í að taka við kærum á ákvörðunum sýslumanns um gjafsókn. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að skilyrðum fyrir gjafsókn verði breytt og í fjórða lagi er kveðið á um hvernig fara skuli með ákvörðun um málskostnað í máli sem nýtur gjafsóknar.

Rétt er í upphafi að fara yfir það fyrirkomulag sem nú er í gildi. Í dag er öllum umsóknum um gjafsókn beint til innanríkisráðuneytisins og tekur ráðuneytið endanlega ákvörðun um gjafsókn. Áður en slík ákvörðun er tekin leitar ráðuneytið umsagnar frá gjafsóknarnefnd sem leggur mat á hvort skilyrði fyrir gjafsókn séu fyrir hendi og þar með hvort veita eigi gjafsókn eða synja. Er ráðuneytinu ekki heimilt að veita gjafsókn nema gjafsóknarnefnd mæli með því að gjafsókn verði veitt. Þegar kemur að ákvörðun um þóknun og málskostnað í gjafsóknarmálum hafa dómstólar einungis tekið ákvörðun um hver skuli vera þóknun lögmanns gjafsóknarhafa en ráðuneyti tekið ákvarðanir um annan málskostnað, t.d. útlagðan kostnað lögmannsins og greiðslu til matsmanna. Sýslumaðurinn á Vesturlandi hefur veitt gjafsóknarnefnd þjónustu við undirbúning gjafsóknarmála og annast greiðslu reikninga vegna gjafsóknarmála.

Í þessu frumvarpi er lögð til sú breyting að sýslumaður taki við verkefnum þeim sem ráðuneytið hefur hingað til sinnt í gjafsóknarmálum. Er það fyrirkomulag m.a. lagt til vegna ákvæðis til bráðabirgða í lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, nr. 52/2014, þar sem kveðið var á um að skoða yrði hvaða verkefni ákjósanlegt væri að færu úr ráðuneytum til sýslumannsembætta. Því er í frumvarpi þessu lagt til að allar umsóknir um gjafsókn verði sendar sýslumanni og hann meti hvort skilyrði fyrir gjafsókn séu uppfyllt og taki ákvörðun um hvort veita eigi gjafsókn eða synja. Ákvörðunum sýslumanns megi skjóta til gjafsóknarnefndar sem fær með þessu frumvarpi nýtt hlutverk. Í dag, eins og hér hefur komið fram, er hlutverk hennar að meta hvort gjafsókn sé fyrir hendi og gefa ráðuneyti umsögn um það og er hún bindandi. Núna verður hlutverk nefndarinnar, verði frumvarpið að lögum, að taka við kærum vegna ákvarðana sýslumanns til meðferðar, endurmeta þá ákvörðun og eftir atvikum staðfesta ákvörðun sýslumanns eða taka nýja ákvörðun. Með því fyrirkomulagi geta ákvarðanir um synjun á gjafsókn eða ákvörðun um takmörkun á gjafsókn fengið meðferð á tveimur stjórnsýslustigum en slíkt hefur ekki verið í því kerfi sem nú er. Því er gerð sú breyting á vali manna í gjafsóknarnefnd að í stað þess að ráðherra skipi einn nefndarmann án tilnefningar verði Mannréttindaskrifstofu Íslands falið að tilnefna einn. Að öðru leyti eru tilnefningaraðilar óbreyttir frá því sem nú er.

Þá er lagt til að dómstólar taki, auk ákvörðunar um þóknun til lögmanns gjafsóknarhafa, ákvörðun um útlagðan kostnað lögmannsins vegna málsins. Hins vegar taki sýslumaður ákvarðanir um annan málskostnað, eins og kostnað matsmanna. Í undantekningartilvikum getur sýslumaður tekið ákvörðun um þóknun til lögmanns og útlagðan kostnað hans ef mál er ekki lagt fyrir dómstóla. Þá er lagt til að kæra megi ákvarðanir sýslumanns um málskostnað til gjafsóknarnefndar.

Einnig er lagt til að skilyrðum fyrir gjafsókn verði breytt. Þannig verði lögð áhersla á að þeim fjármunum sem veitt er til gjafsóknar mála verði ráðstafað til þeirra einstaklinga sem ekki geta kostað málsókn sína sjálfir. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til verður tekin upp ný regla og er sama reglan og gilti eftir breytingu sem var gerð á gjafsóknarreglum frá 2005–2012 þegar endurvakin voru eldri ákvæði um gjafsókn frá 1991. Þykir rétt að hverfa nú frá þeim skilyrðum sem nú eru í gildi og leggja áherslu á að gjafsókn sé veitt efnaminni einstaklingum en ekki lögaðilum eða þeim sem hafa fjárhagslega burði til að kosta málsókn sína sjálfir. Þannig er í frumvarpi þessu gert að grundvallarskilyrði fyrir gjafsókn að gjafsókn sé veitt einstaklingi sem ekki hefur fjárhagslega burði til að greiða fyrir málskostnað sinn. Auk þess þarf að vera tilefni til málsóknar og eðlilegt að málsókn sé kostuð af almannafé.

Í dag er ekki með skýrum hætti kveðið á um að gjafsókn sé eingöngu ætluð einstaklingum og jafnframt er sá möguleiki til staðar að veita þeim sem hafa fjárhagslega burði til að kosta málsókn sína sjálfir gjafsókn.

Virðulegi forseti. Ég hef hér gert grein fyrir þessu frumvarpi og legg til að því verði vísað til hæstv. allsherjarnefndar og þóknanlegrar 2. umr.