145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

meðferð einkamála.

657. mál
[14:17]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir þessa framsögu um málið og fyrir að leggja málið fram. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að endurskoða þessi lög.

Mig langaði aðeins að spyrja hana. Ég viðurkenni það hér og nú að ég er ekki búin að lesa frumvarpið eins og það liggur fyrir en ég ásamt öðrum hv. þingmönnum lagði fram þingsályktunartillögu sem er 29. mál, henni var útbýtt 17. september 2015, sem fjallar einmitt um endurskoðun á skilyrðum gjafsóknar, sem fjallar um tekjuviðmiðin. Í þeirri greinargerð er talað um að tekjuviðmið þeirrar reglugerðar sem síðast var breytt í desember 2010 og á við gjafsóknir, en þau voru hækkuð þá annars vegar í 2 millj. kr. og hins vegar í 3 millj. kr. fyrir þá sem eru með það í heildarlaun. En mig langaði í rauninni að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort tekjuviðmiðin sjálf verði eitthvað hækkuð í þessari endurskoðun því að samkvæmt núverandi tekjuviðmiðum eru þau mjög lág. Ef maður skoðar fólk á lágmarksbótum, hjón á atvinnuleysisbótum, segjum það, þá eru þau samkvæmt núverandi reglugerð of tekjuhá til að uppfylla þessi skilyrði, til að fá gjafsókn. Ég tel mjög mikilvægt að allir geti sótt rétt sinn fyrir dómstólum óháð efnahag og stöðu. Það er mjög dýrt að sækja mál, sérstaklega eins og sumir hafa þurft að gera frá því að efnahagshrunið átti sér stað hér, að sækja mál gagnvart fjármálastofnunum til að leita réttar síns.