145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

meðferð einkamála.

657. mál
[14:20]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir gott og ánægjulegt svar um að tekjuviðmiðin liggi undir endurskoðun á reglugerð. Ég veit að það eru einstaklingar sem hafa sótt um gjafsókn vegna erfiðra mála í fjármálakerfinu og furðað sig á því hversu lág tekjuviðmiðin eru. Maður hefur auðvitað sett spurningarmerki við að þau skuli vera svona lág. Fyrir hvern eru þau ef fólk á atvinnuleysisbótum getur ekki einu sinni fengið gjafsókn? En það er mjög ánægjulegt að þetta verði endurskoðað. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það mun líta út. Ég vil brýna hæstv. ráðherra svo að það gangi fljótt og vel fyrir sig og að við getum veitt þeim sem virkilega þurfa á þessum málum að halda vegna stöðu sinnar, efnahagslegrar stöðu, kost á því að sækja þetta til þess að ná að klára deilumál fyrir dómstólum er varða til dæmis fjármálakerfið. Það er löngu kominn tími til þess að við náum að klára það sem gerðist hér og að fólk geti leitað réttar síns þrátt fyrir erfiða efnahagslega stöðu.