145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

meðferð einkamála.

657. mál
[14:22]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir framsöguna og kynninguna á þessu frumvarpi sem ég hygg að sé mjög til bóta. Það er mjög mikilvægt að hér á landi geti fólk óháð efnahag stutt sig við þá vernd sem lögin veita. Ein spurning sem ég vildi beina til hæstv. innanríkisráðherra er þessi: Var í þessari vinnu eitthvað skoðuð sú tegund af brotum sem fólk verður fyrir þegar það verður fyrir litlu tjóni sem er kannski lægri fjárhæð en sú að hún réttlæti það að leita lagalegs réttar síns? Það er stór hópur fólks sem hefur verið narraður með einhverjum hætti af einhverjum einum aðila, það eru svona hópmálssóknir. Er líka tilefni til þess að hið opinbera fylgist á einhvern hátt með og veiti þeim aðhald sem gera nánast út á þetta, að valda fjölda manns lægra tjóni en svo að þeir nenni að fara í mál eða hafi efni á að ráða lögfræðing?

Hingað til hefur nánast þurft lögfræðimenntaðan mann til að leggja gögn í hendur nefndarinnar sem hefur fjallað um gjafsóknir. Það hefur ekki verið talið á færi almenns borgara að afhenda gögnin með þeim hætti að hann eigi möguleika á að málið fái jákvæða umfjöllun. Hitt sem ég vildi spyrja út í er: Er það gert eitthvað auðveldara hér fyrir almenning, svo fólk geti sótt um gjafsókn án þess að leita sér lögfræðiaðstoðar?