145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

meðferð sakamála og meðferð einkamála.

660. mál
[14:26]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ákvæðum laga um meðferð einkamála og laga um meðferð sakamála vegna endurupptöku dómsmála.

Um er að ræða breytingu á 2. málslið 1. mgr. 214. gr. laga um meðferð sakamála og 2. og 3. málslið 3. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála og lagt til að þar verði skýrt kveðið á um að taki endurupptökunefnd ákvörðun um að dómsmál skuli endurupptekið þá haldi fyrri dómur gildi sínu þar til nýr dómur í málinu hefur verið kveðinn upp. Eru þessar breytingar lagðar til vegna niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli nr. 628/2015, frá 25. febrúar 2016, um að fyrirmæli í núgildandi 2. málsliðar 1. mgr. 214. gr. laga um meðferð sakamála séu andstæð stjórnarskrá. Í ákvæðinu er kveðið á um að ákveði endurupptökunefnd að endurupptaka skuli mál falli fyrri dómur úr gildi. Bendir Hæstiréttur á að endurupptökunefnd sé stjórnsýslunefnd sem heyri undir framkvæmdarvaldið. Með þessu ákvæði sé henni falið hlutverk sem geti náð til þess að fella úr gildi úrlausnir dómstóla. Slík skipan sé andstæð 2. gr. stjórnarskrárinnar. Lagaákvæðið sé því ekki gild réttarheimild og verði því ekki beitt. Samsvarandi heimild er að finna í lögum um meðferð einkamála.

Í þessu frumvarpi eru lagðar til nauðsynlegar breytingar svo að umrædd lagaákvæði séu ekki í andstöðu við stjórnarskrá. Ekki er um aðrar breytingar á fyrirkomulagi endurupptöku mála að ræða heldur eingöngu þessar breytingar sem leiða af viðkomandi dómi Hæstaréttar og tryggja það að lögin séu í samræmi við stjórnarskrána.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.