145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaröryggisráð.

784. mál
[14:29]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil gera grein fyrir umræðum sem áttu sér stað í hv. utanríkismálanefnd á milli 2. og 3. umr. Það var óskað eftir því af hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni við 2. umr. að tekin yrði til ríkari og frekari skoðunar sú hugmynd sem hann hefur talað fyrir og verið með um að bætt yrði inn í þjóðaröyggisráðið einum fulltrúa, þ.e. tollstjóraembættinu.

Nefndin tók málið fyrir á fundi síðastliðinn fimmtudag en reyndar hafði áður verið, eins og ég hef greint frá í umræðum áður, mikil umræða í nefndinni um hvernig halda skyldi á skipan þjóðaröryggisráðsins. Myndaðist góð og mikil samstaða um að bæta ekki fleiri embættismönnum í þennan hóp ráðherra. Síðan var bætt við einum fulltrúa frá Landsbjörg til að tryggja að þarna væru líka aðilar sem koma að almannavörnum og slíkri starfsemi meira á sjálfboðagrundvelli en gerist innan embættismannakerfisins. Eftir ítrekaðar umræður í utanríkismálanefnd og aftur síðasta fimmtudag þar sem kom fram mikilvægi þess að tollstjóri sé vel inni í þessum málum, enda hafi ráðið og hefur heimild til að kalla inn embættismenn hvenær sem þurfa þykir og má ætla að til hans verði oft leitað, varð það niðurstaða nefndarinnar og samhljóma álit að ekki skyldi fjölga í ráðinu heldur halda sig við tillöguna eins og hún hafði verið lögð fram og þær breytingartillögur sem nefndin hafði gert samhljóða með það að markmiði að tryggja að áfram héldist sú ríka og mikla samstaða sem um málið hafði náðst og hefur náðst. Nefndin leggur því ekki til breytingar á málinu eins og það kom fram við 2. umr. og vonast til þess að málið nái góðum framgangi og þingheimur verði sammála um að hafa það með þeim hætti.