145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stjórn fiskveiða.

795. mál
[14:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Forseti. Ég bið frú forseta afsökunar á því hafi ég ekki gefið nægilega skýrt merki um það að ég hygðist taka til máls. En ég ætla að fara nokkrum orðum um þessar ágætu tillögur sem formaður míns flokks, hv. þm. Oddný Harðardóttir, flutti hér áðan.

Ég tel að þetta sé eitt af þeim málum sem er mikilvægt og reyndar mjög brýnt að hið háa Alþingi taki til afgreiðslu áður en það lýkur störfum og við förum í kosningabaráttu. Ég er þeirrar skoðunar að eitt af þeim málum sem hefur slitið þessa þjóð hvað erfiðast í sundur á síðustu áratugum sé deilur um stjórn fiskveiða. Almenningi í landinu finnst eins og auðlindinni í sjónum hafi verið stolið frá sér. Ég tel að það sé eitt mikilvægasta hlutverk okkar sem myndum löggjafann að sjá til þess að þeirri eign almennings verði skilað til hans aftur. Það verður best gert með því að taka upp þá stefnu sem Samfylkingin fyrst allra stjórnmálaflokka mótaði hér á hinu háa Alþingi og felst í því að aflahlutdeild, kvótinn, verði boðin upp og andvirðið renni til okkar allra, þ.e. í ríkissjóð. Ég tel að besta skrefið til að undirbúa það sé að samþykkja þá tillögu sem formaður Samfylkingarinnar flytur hér. Það er fyrsta skrefið. Eins og hún rakti í mjög skýru og ítarlegu máli er þetta tilvalið skref að taka til þess að fá reynslu og undirbúa það að stíga skrefið til fulls og setja með einhverju móti allar aflaheimildir á markað. Eins og hv. þingmaður rakti er þetta kerfi notað til þess að úthluta nýtingarrétti á takmörkuðum auðlindum víðs vegar um heim. Minn flokkur, Samfylkingin, gerði þetta að sínu fyrsta stefnumáli. Hún samþykkti þá stefnu strax árið 2000, daginn eftir að ég hóf störf sem fyrsti formaður Samfylkingarinnar, að öllum takmörkuðum auðlindum skyldi deilt út með þessum hætti, alveg eins og hv. þm. Oddný Harðardóttir rakti áðan.

Ég er líka þeirrar skoðunar að ýmsar þær gagnrýnisraddir sem hafa heyrst gegn þessari tillögu hafi í reynd fallið dauðar niður. Það er hægt að finna hitt og þetta að því hvernig afleiðingar þessa kerfis mundu verða. Þar hafa menn fyrst og fremst talað um tvennt. Þetta kynni að leiða til þess að aflaheimildir flyttust frá sjávarbyggðunum og það yrði samþjöppun. Eins og fyrsti flutningsmaður málsins sagði í skýrri ræðu sinni áðan er auðvelt að sneiða hjá þeim skavönkum með útfærslunni á þessari leið. Það hefur öðrum tekist og það mun okkur takast líka. Þar að auki bendi ég á það, frú forseti, að nú þegar eru til staðar í lögum sérstök ákvæði sem koma í veg fyrir að samþjöppun verði of mikil. Menn hafa reynt að fara í kringum það. Mér virðist sem framkvæmdarvaldinu hafi samt með reglusetningu sem á sér stoð í löggjöf tekist að komast hjá því að menn smokri sér undan því. Við getum vel velt fyrir okkur, ef þessi leið er farin, að lækka það mark sem sérhver útgerð má eiga í aflahlutdeild í tiltekinni tegund. Við getum líka farið þá leið eins og hefur verið reifuð og lögð fram af Samfylkingunni að hluti andvirðisins sem kemur við uppboð á aflahlutdeildum renni til viðkomandi eða tiltekinna sjávarbyggða. Þarna er um ýmiss konar útfærslur að ræða sem hægt er að skoða sem allar geta tryggt að sjávarbyggðirnar njóti ávinningsins af nálægð við miðin og njóti sömuleiðis þess frelsis sem mun felast í þessari aðferð.

Ég er þeirrar skoðunar að eitt af því sem hefur bagað lund landans sé einmitt sú staðreynd að þessi forni höfuðatvinnuvegur er lokaður. Það er ekki fyrir neinn venjulegan Íslending að komast inn í sjávarútveg í dag. Menn þurfa að hafa greiðan aðgang að bönkum eða eiga stórt kapítal til þess að geta keypt skip og útgerðir og aflahlutdeildir. Með þessu móti tel ég að frelsi og nýliðun í greininni sé aukið verulega. Það skiptir líka máli. Þó vil ég taka fram að ég tel að sjávarútvegurinn hafi á síðustu árum sýnt mikinn þrótt í sinni endursköpun. Ef við skoðum kvótakerfið eins og það hefur verið framkvæmt á síðustu árum skulum við ekki gleyma hinu upphaflega markmiði þess. Það var vitaskuld fyrst og fremst umhverfisvernd. Það var vernd auðlindarinnar. Það var vernd stofnanna, að koma í veg fyrir að þeir yrðu ofveiddir. Hvað sem um kvótakerfið má segja hefur það náð þessu takmarki. Við búum nú við þá stöðu, Íslendingar, að fiskstofnarnir hér eru að heita má vísindalega verndaðir og eina gagnrýnin sem heyrist, en heyrist reyndar oft og er hávær, á framkvæmd þeirrar stefnu er sú að vísindamenn og stjórnvaldið séu of varkár. Við séum að veiða of lítið. Það kann vel að vera að á vorum tímum þegar hlýnar í sjónum og þegar framleiðslan er að aukast kunni sú staðhæfing að eiga meiri og gildari rök undir sér en varfærnir vísindamenn vilja telja. Með þessu er ég síður en svo að mæla fyrir því að farið verði gegn ráðum vísindamanna. Við höfum séð það á umliðnum áratug, það er ekki nema áratugur frá því að menn fóru að fara mjög gaumgæfilega eftir ráðgjöf vísindamanna, að stofnarnir hafa byggst upp. Það er ekki bara vegna þess að við höfum fetað þennan vísindalega stig heldur ekki síður út af hinu að umhverfisbreytingarnar í hafinu hafa verið okkur og stofnunum sem við nytjum mjög til góða.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hef lýst á síðustu árum héðan úr ræðustól Alþingis og hafði einu sinni pínulítið vit á þessum vísindum, að á næstu árum munum við sjá að það verði aukið reglulega við kvótann. Ég tel að þegar þeirri stofnstærðarþróun lýkur verðum við aftur komin í að veiða 350 þús. tonn af þorski. Svo kann vel að vera að breytingar á veðurfari jarðarinnar leiði til þess að við kunnum að missa einhverja af þessum stofnum. Við skulum ekki gleyma því að það eru veðurfarsbreytingar sem hafa fært okkur mesta ávinning af sjávarútvegi síðustu áratuga, liggur mér við að segja, þ.e. makrílstofninn flutti sig hingað inn í efnahagslögsögu Íslands einungis út af því að það urðu breytingar á hitafari sjávar. Þær geta líka leitt til þess að í framtíðinni kunni ýmsar kaldsæknar tegundir að flytja sig um set og hverfa norðar og jafnvel út úr efnahagslögsögunni hjá okkur. Ég nefni kandídat í slíkt sem gæti verið loðna. Að þessu þarf líka að hyggja, ekki síst í milliríkjasamningum.

Ég nefndi makrílinn og ekki að ástæðulausu. Frændur okkar Færeyingar gerðu sér ferð til Íslands til þess að skoða þær hugmyndir sem hér voru á döfinni og hafa verið þróaðar fyrst og fremst af sérfræðingum og fyrrum þingmönnum innan Samfylkingarinnar. Niðurstaðan varð sú að Færeyingar ákváðu nánast að fara þá leið sem fyrst var kynnt af hálfu Samfylkingarinnar á stofnþingi hennar árið 2000. Það tókst með slíkum ágætum að þar eru menn að bjóða upp aflaheimildir í síld og í makríl með þeim hætti að á sama tíma og íslenskir útgerðarmenn borga örfáar krónur og nokkra aura til viðbótar í veiðigjald fyrir makríl fá menn tvítug- og þrítugfalt meira fyrir það í Færeyjum. Geta menn gert sér í hugarlund hvers konar upphæðir væri hægt að færa í vasa ríkissjóðs og þar með til okkar inn í samneysluna ef þessi leið væri farin, t.d. eins og við í Samfylkingunni og fleiri í stjórnarandstöðunni vildum varðandi makríl? Geta menn gert sér í hugarlund hvað það gæti breytt miklu og hvað væri hægt að breyta miklu fyrir t.d. aðhlynningu aldraðra, aðbúnaðinn á Landspítalanum, kjarabætur fyrir öryrkja?

Það verður að tengja þetta saman. Ríkisstjórnin hefur árum saman verið að verja sérhagsmuni — og þetta eru sérhagsmunir — stórútgerðarinnar. Í reynd snýst þessi deila um baráttuna á milli sérhagsmuna hinna fáu og hins vegar almannahagsmuna. Almannahagsmunirnir felast í því að við, þjóðin, fáum tekjurnar af því sem er sannarleg eign okkar og í lögum stendur að við fáum tekjurnar fyrir nýtingarréttinn af auðlindinni. Eins og hv. þm. Oddný Harðardóttir sagði rétt áðan: Enginn ætlar að þjarma að greininni og þess vegna er besta leiðin til þess að laga veiðigjaldið og það sem tekið er fyrir sem afgjald af nýtingu stofnanna að fara markaðsleiðina. Þá mun afkoma greinarinnar ráða því hversu mikið fyrirtækin treysta sér til þess að greiða fyrir. Veiðigjaldið mun sveiflast eftir afkomu greinarinnar. Þannig er innbyggt í þá leið sem hér er verið að kynna af þingmönnum margra flokka að hún tekur mið af rekstrarafkomu. Það er innbyggt í hana að hún getur ekki gengið svo fast að greininni að hún bíði þess ekki bætur eða bíði mikil sár af. Það er mjög mikilvægt. Þannig mun sú aðferð sem hér er lögð til tryggja að almannahagsmunirnir séu virtir, að eigendurnir, þjóðin, fái afraksturinn en sömuleiðis er líka verið að vernda sjávarútveginn.

Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, að þetta mál verði að fá afgreiðslu á Alþingi Íslendinga. Hér er vissulega bara um áfanga að ræða að miklu stærra máli. En mjór er mikils vísir. Það er alltaf gott að heyja sér reynsluforða áður en menn taka stökkið út í djúpu laugina. Hér er tilvalið tækifæri að reyna þessa aðferð í litlum mæli. Við höfum séð að hún hefur gefist vel hjá nágrannaþjóðinni Færeyingum. Og hvers vegna skyldum við ekki taka þetta skref?

Ég er þeirrar skoðunar að á þessu þingi þar sem ríkisstjórnin hefur farið mikinn um að hér séu svo stór mál sem þurfi að afgreiða sé það sanngjarnt og réttlátt að stjórnarandstaðan fái líka að ræða til þrautar og til enda þau mál sem hún ber fyrir brjósti. Við sjáum líka að þingið hefur nógan tíma. Hér hefur það gerst síðustu daga að þingi hefur slotað stundum um hádegi, eins og á föstudag. Hér eru aldrei kvöldfundir í þessari síðustu lotu þingsins vegna þess að ríkisstjórnin er ekki með nein sérstök mál sem hún telur brýnt að afgreiða. Ég bendi sérstaklega á það að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem enn er formaður Framsóknarflokksins, sagði að það kynni að þurfa að fresta kosningum ef stjórnarandstaðan væri að þvælast fyrir. En herra trúr, fyrir hverju eigum við að þvælast? Hér liggur ekkert sérstaklega fyrir þessu þingi. Og það var sláandi að sjá að hvað varð um þau mál sem hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að lífsnauðsynlegt væri að ljúka á þessu þingi. Hvað varð um þau þegar þau voru lögð fram í þingið? Jú, þau komu hér, þrjú stór mál sem hæstv. fjármálaráðherra og örugglega formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins tekur undir að ekki væri hægt annað en að ljúka í hvelli. Hvað varð um þau? Þau hurfu inn í ginnungagap nefndarinnar sem fjallar um þau og er stýrt af meiri hluta stjórnarliðsins, voru send út til umsagnar. Og hvenær á að skila umsögnunum? Deginum áður en að þingi á að slota. Hvers konar vinnubrögð eru það?

Þetta sýnir bara að hér er blekkingaleikur í gangi af hálfu ríkisstjórnarinnar, ekkert að marka það sem hún segir um að hér séu brýn mál þegar hún sjálf er að reyna að fela sín eigin mál. Hvar er búvörusamningurinn, frú forseti? Jú, hann er líka fastur í nefnd. Út af hverju? Út af reiptogi á millum stjórnarflokkanna. Ekki er það stjórnarandstaðan sem er að þvælast fyrir því.

Þegar formaður Framsóknarflokksins var að tala um að stjórnarandstaðan væri að þvælast fyrir málum þá ætti hann að horfa í spegil og þá sér hann a.m.k. eitt sett augna sem tilheyrir þeim sem eru að tefja hér öll meiri háttar mál með innbyrðistogstreitu. Auðvitað er staðreyndin sú að samstarfið á millum þessara ríkisstjórnarflokka sem nú eru, það er búið. Þessi ríkisstjórn er lifandi dauð. (Gripið fram í.) Hún er, með leyfi forseta, „dead man walking“. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi.

Hér er ekkert meiri háttar mál sem þingið getur afgreitt vegna meiri háttar ágreinings á millum ríkisstjórnarflokkanna. Við sáum það hvernig félagsmálaráðherra hæddi og spottaði fjármálaráðherrann, sagði það bókstaflega að formanni Sjálfstæðisflokksins væri ekki trúandi til þess að gæta hagsmuna barnafjölskyldna, aldraðra og öryrkja. Hvenær í sögu þingsins hefur það gerst að ráðherra í ríkisstjórn hafi með þessum hætti fullkomlega niðurlægt formann annars stjórnarflokksins eða, með leyfi forseta, dissað hann algjörlega? Hann benti á það í staðinn að eitt af þeim málum sem viðkomandi ráðherra hefur barist fyrir er ekki einu sinni komið inn í ríkisstjórn. Það hangir á tölvu félagsmálaráðuneytisins. Og svo koma menn hér og berja sér á brjóst yfir því að stjórnarandstaðan sé að þvælast fyrir.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Við þessar aðstæður tel ég að sé sanngjarnt, þegar ljóst er að þingið hefur nógan tíma, að tillagan (Forseti hringir.) sem hv. formaður Samfylkingarinnar mælti fyrir fái að lokum endanlega afgreiðslu (Forseti hringir.) og það er a.m.k. krafa þess þingmanns sem hér stendur. Ég vil ekki fara af þinginu (Forseti hringir.) án þess að þessi tillaga um uppboð á veiðiheimildum verði tekin til afgreiðslu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Ertu í prófkjöri?)