145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stjórn fiskveiða.

795. mál
[15:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að þetta mál sé komið á dagskrá þó að ástæðan fyrir því sé nú raunar, sem kunnugt er, málafátækt frá ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum í þinginu og ekkert annað að ræða en þingmál frá stjórnarandstöðunni. En gott að það gefist tækifæri til að ræða þetta mikilvæga mál og maður saknar sannarlega stjórnarliða hér úr umræðunni, sérstaklega vegna þess að þeir hafa jú lagt allt kapp á það á þessu kjörtímabili að lækka þau gjöld sem útgerðin greiðir í sameiginlega sjóði fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni við Ísland, jafn gríðarleg verðmæti og það eru. Það er auðvitað mikið lán fyrir okkur Íslendinga að vera rík af auðlindum. Til þess að gefa hugmynd um stærð auðlinda okkar þá er það þannig að fyrir hvert mannsbarn á Íslandi veiðum við nærri því tíu kíló á hverjum virkum degi, raunar alla daga vikunnar. Það er auðvitað miklu meira en við getum nokkurn tíma borðað. Þess vegna er lunginn af þessum mikla afla uppistaðan í gríðarlegum gjaldeyristekjum.

En það er ekki alltaf gæfa því samfara að vera rík af auðlindum. Það sýnir sagan að það ræðst mjög af því hvernig þjóðir halda á auðlindum sínum hvort þær verða þeim til gæfu eða til hreinnar ógæfu, því að mörg af þeim löndum sem í mestum erfiðleikum eiga í heiminum eru einmitt auðlindaríkar þjóðir þar sem alþjóðleg stórfyrirtæki hafa náð að sölsa undir sig auðlindirnar og íbúarnir njóta einskis af afrakstrinum. Okkur í Samfylkingunni hefur þótt til mestrar fyrirmyndar hvernig jafnaðarmenn í Noregi hafa haft forustu um það að tryggja þjóðareign áfram á mikilvægum auðlindum, svo sem olíuauðlindum þeirra, sem eru gríðarlegar eins og kunnugt er, og hefur orðið til þess að þeim hefur lánast miklum mun betur en til að mynda Dönum á sinni tíð að tryggja almenningi hlutdeild í þeim mikla hagnaði sem er af nýtingu olíuauðlindanna. Í Danmörku fóru menn þá leið að einkavæða þær en í Noregi hafa menn byggt þetta upp á vegum ríkisins og haft um það sérstakan auðlindasjóð.

Það er baráttumál okkar í Samfylkingunni að við Íslendingar förum sömu leið, stofnum auðlindasjóð um auðlindir okkar, ekki bara fiskveiðiauðlindina heldur líka ýmsar þær aðrar auðlindir sem við erum rík af og munum verða rík af í framtíðinni. Við getum nefnt þar vatnsföllin, jarðhitann, það geta verið takmarkaðar auðlindir eins og mengunarkvótar, fjarskiptarásir í lofti, eins og sjaldgæf efni í jörðu, í lífríki og þar fram eftir götunum. Og að þetta, eðlilegur arður Íslendinga, sameiginlegar tekjur okkar af þessum auðlindum, renni í þennan sameiginlega auðlindasjóð sem sé síðan varið til að efla og styrkja velferð í landinu og vöxt og viðgang í samfélaginu öllu.

Best væri til þess, að okkar viti, að það gjald sem einkaaðilar greiddu fyrir að nýta auðlindirnar réðist á markaði. Það væru einfaldlega réttindi sem væru boðin upp og einstaklingar og fyrirtæki sitji við sama borð, geti allir gert boð í slík réttindi, hverju nafni sem þau nefnast, og að sá sem á besta boðið fái réttindin einfaldlega og gjaldið renni til okkar Íslendinga saman. Við getum notað það til þess að byggja Landspítala, efla heilbrigðiskerfið, styrkja rannsóknarsjóði í tengslum við menntakerfið eða bæta kjör aldraðra eða hvaða önnur samfélagsleg verkefni við teljum mikilvægt að láta peninga renna til. Það er alveg ljóst að við getum haft miklu meiri tekjur af auðlindum okkar sameiginlega en við gerum í dag. Það hefur í raun og veru verið alger fásinna meðan fjölmargir í samfélaginu, sérstaklega í hópi lífeyrisþega, aldraðra og öryrkja, búa við skort, meðan ástandið á Landspítalanum og víða í heilbrigðiskerfinu einkennist svo mjög af skorti, að menn hafi haft það sem forgangsverkefni, stjórnarflokkarnir, að minnka sameiginlegar tekjur okkar af auðlindum landsins, meðan þessi mikli skortur er bæði hjá fólki og stofnunum velferðarkerfisins.

En menn hafa haft við þetta það að athuga að þess séu dæmi í sjávarútvegi að fyrirtæki séu þar sum skuldsett vegna þess að þau hafi gert ráð fyrir að geta hagnýtt sér þessi réttindi um langa framtíð. Þess vegna sé ekki eðlilegt að innkalla aflaheimildirnar í einu vetfangi heldur þurfi það að gerast yfir tíma. Þetta þingmál sem Oddný G. Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, er forustumaður fyrir gerir hins vegar ráð fyrir því að við tökum bara það sem snýr að aflaaukningu, þ.e. aðeins hinn bætta hag, aðeins það sem menn gátu ekki reiknað með að fá. Menn haldi þeim heimildum sem þeir hafa og geta hafa gert ráð fyrir til einhverra missira að hafa á sínu forræði, en að aflaaukningin, af henni fáist bæði eðlilegar tekjur og sé jafnræði meðal þeirra sem leita eftir því að fá að nýta þessar auknu aflahlutdeildir.

Ég held að þetta sé ákaflega hóflegt skref og um leið mikilvægt. Ef ekki er hér í þinginu meiri hluti fyrir því, því að ég vil segja að þetta skref væri ekki í neinu ósamræmi, að því er ég fæ séð, við ýmislegt af því sem Framsóknarflokkurinn hefur sagt og sannarlega í þá átt sem stjórnarandstaðan hefur talað og þess vegna kannski í raun þingmeirihluti fyrir málinu, hvernig sem fyrir því fer í þinginu, þá er það a.m.k. mikið gleðiefni að þeir stjórnmálaflokkar sem nú hafa lýst því yfir að þeir muni ekki bak kosningum starfa með Sjálfstæðisflokknum og lýkur eru til eins og staðan er núna að geti náð saman meiri hluta í þingi eftir kosningar, þeir hafa allir sagt að uppboðsleiðin í sjávarútvegi komi til álita. Það gefur manni von um að það geti á allra næstu vikum, a.m.k. eftir 29. október, verið kominn pólitískur vilji í mörgum flokkum fyrir því að tryggja auknar tekjur þjóðarinnar sameiginlega af auðlindum sínum, fyrir því að gera það með uppboðsleið og nýta arðinn af því til þess að bæta kjör stórra hópa sem setið hafa eftir, barnafjölskyldna, öryrkja og aldraðra, og berja í brestina í velferðarkerfinu með því að láta fé af hendi rakna til uppbyggingar Landspítalans og annarra mikilvægra velferðarverkefna.

Ég vona að þangað til geti menn sameinast um það í þinginu að taka þetta afmarkaða skref, nýta bættan hag í sjónum, nýta happdrættisvinning sem menn gátu ekki reiknað með að fá inn á efnahag fyrirtækja sinna og bjóða auknar aflaheimildir einfaldlega upp þannig að menn sitji þar við sama borð og eðlilegt markaðsafgjald fáist af sameiginlegum auðlindum okkar allra Íslendinga.