145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

353. mál
[15:27]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu hverri ég er 1. flutningsmaður að en ásamt mér á þeirri tillögu eru allir hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að láta vinna stefnumörkun um aðgerðir sem miði að því að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2050.

Í stefnumörkuninni verði verkefnið afmarkað og helstu þáttum þess og verkefnasviðum lýst, svo sem samgöngum, orkubúskap, framleiðslustarfsemi, skipulagsmálum o.fl. Einnig verði gerð drög að aðgerðaáætlunum með áfangaskiptingu, endurskoðunar- og endurmatsákvæðum, skilgreiningum á ábyrgð á framkvæmd og ákvæðum um eftirfylgni.

Þessari tillögu var dreift hér snemma í vor en þar er lagt til að stefnumörkunin verði kynnt umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í síðasta lagi 1. október 2016, en fullmótuð aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland verði borin undir Alþingi í formi þingsályktunartillögu eigi síðar en 1. mars 2017.

Þessari tillögu er ætlað að reyna að ná á heildstæðan hátt utan um þau markmið sem Ísland hefur þegar undirgengist, t.d. með því að skrifa undir Parísarsamkomulagið, sem raunar hefur ekki verið fullgilt enn en við höfum verið fullvissuð margoft um að verði fullgilt á þessu þingi. Ég ætla rétt að vona að það standist. Tillögunni er ætlað að ná á heildstæðan hátt utan um þá stefnumörkun sem segja má að við höfum þegar undirgengist þannig að hún verði öll saman í einni áætlun. Í gær var til að mynda til umræðu orkuskiptaáætlun frá hæstv. iðnaðarráðherra. Við höfum rætt umhverfisþætti og loftslagsáhrif búvörusamninga í þessum sal. Við höfum rætt samgönguáætlun og hugsanleg loftslagsáhrif af henni. Það er mikilvægt þegar við horfum á þetta verkefni að við horfum á það heildstætt þannig að einstakar áætlanir ríkisins eða hins opinbera vinni saman að markmiðinu.

Sjálf tillagan er ekki aðgerðaáætlun. Hún er í raun og veru tillaga um að þessi aðgerðaáætlun verði gerð. Ég þarf auðvitað ekki að fara út í það að þetta er mál sem hefur verið margoft rætt á þingi, þ.e. um áhrif koltvísýrings á veðurfar og loftslag á jörðinni. Það er staðreynd að talið er að styrkur koltvísýrings í andrúmslofti hafi aukist um allt að 35% á síðustu tveimur öldum í tengslum við iðnvæðingu samfélagsins. Því má segja að það sé sterk og ótvíræð fylgni milli mannlegra athafna og aukins styrks koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðarinnar. Þó að mannlegar athafnir valdi aðeins hluta af þessari losun er ljóst að sú viðbót raskar náttúrulegu jafnvægi og veldur vandkvæðum. Þar skiptir auðvitað bruni jarðefnaeldsneytis miklu sem orsakavaldur en líka eyðing skóga og annarra vistkerfa sem og losun frá framræstu landi. Aukinn styrkur gróðurhúsalofttegunda stafar þannig ekki einvörðungu af útblæstri frá iðnaði eða samgöngum heldur einnig frá skógarhöggi, landbúnaði og framræslu votlendis auk ýmissa annarra athafna. Losun góðurhúsalofttegunda á Íslandi árið 2012 var greind og flokkuð í svari umhverfis- og auðlindaráðherra á þessu þingi, sem birtist á þskj. 215. Þar kom fram að 42% þeirrar losunar sem fellur undir þetta alþjóðlega losunarbókhald sem við erum aðilar að í gegnum Kyoto-bókunina stafaði frá iðnaði og efnanotkun en mestri losun gróðurhúsalofttegunda olli hins vegar framræsla lands. Þannig var öll losun frá athöfnum sem falla undir Kyoto-bókhaldið ígildi 4.468 tonna koltvísýrings en losun frá framræstu mólendi var ígildi 9.466 koltvísýringstonna.

Þetta kann fólki að virðast flókið, að við séum aðilar að alþjóðlegu losunarbókhaldi annars vegar og hins vegar með séríslenskt losunarbókhald. Ég tek undir það. Þetta er auðvitað eitt og sama andrúmsloftið og allt sem við gerum hefur áhrif á það. En þetta eru bara tæki og við getum flækt okkur í umræðum um þau en stóra málið er auðvitað markmiðið. Ég vil nefna það að fyrr á þessu þingi var samþykkt tillaga þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um stofnun loftslagsráðs. Ég vonast til þess að við munum frá fregnir af því að umhverfis- og auðlindaráðherra hafi skipað það ráð. Hlutverk þess var að fylgjast með framvindu loftslagsmála og losun gróðurhúsalofttegunda og sérstaklega gera tillögu til stjórnvalda um aðgerðir til að draga úr loftslagsvá, upplýsa almenning og stjórnvöld um þróun loftslagsmála jafnframt því að stuðla að vitundarvakningu um málaflokkinn. Ég vil segja það að verði þessi tillaga samþykkt og þetta mjög svo hógværa markmið, sem ég tel það vera, gæti það spilað mjög vel saman með nýstofnuðu loftslagsráði sem hefði þá það hlutverk að móta slíka aðgerðaáætlun.

Alþingi tók þátt í loftslagsfundinum í París, sem sumir hafa kallað mikilvægasta fund þessarar aldar, þar sem upphaflega var rætt um að tryggja yrði að þjóðir heims skuldbyndu sig til þess að hitastig mundi ekki hækka um meira en tvær gráður á öldinni. Orðalagið var á endanum orðið þannig að lesa mátti í það að það væri á bilinu 1,5–2°. Í raun og veru var mjög áberandi á loftslagsfundinum að 1,5° ætti að vera hið eðlilega markmið þó að ýmis ríki hafi ekki viljað ganga alla leiðina að nefna 1,5°, því að munurinn á 1,5° og 2° er gríðarlega mikill. Þá er ég að tala um ríki sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir loftslagsbreytingum. Ég get nefnt Kyrrahafseyjar í því samhengi sem eru beinlínis í hættu á að hverfa undir sjó hækki hitinn um meira 1,5°.

Það liggur fyrir að langflest ríki heims hafa fallist á þessar forsendur, að áhrif af mannavöldum séu ótvíræð á þessa þróun og hún muni hafa áhrif á það hvernig við búum hér okkar mannlegu samfélög, bæði hvað varðar almenna hlýnun en líka breytingar á veðurfari, auknar öfgar í veðurfari, áhrif á vistkerfi þar sem við horfum hugsanlega upp á fækkun tegundanna með ófyrirséðum afleiðingum, gerbreytingar á vistkerfi í ólíkum heimshlutum. Það er ófyrirséð t.d. hvaða afleiðingar nákvæmlega þetta mun hafa á norðlægum slóðum. Spár ganga út á að veðurfarsbreytingarnar verði meiri hér en víða annars staðar á hnettinum, þannig að við munum finna væntanlega fyrir því. Auðvitað erum við að tala um óráðna framtíð en þar er jafnvel rætt um meiri úrkomu, tíðari storma að ógleymdri súrnun sjávar sem Íslandi stafar eðli máls samkvæmt mikil ógn af.

Því teljum við gríðarmikilvægt að gripið verði til markvissra ráðstafana og það veldur mér áhyggjum að áætlun stjórnvalda um það hvernig eigi að ná markmiðum Parísarsáttmálans sé enn þá nokkuð á huldu þó að eftir henni hafi verið spurt í þinginu. Nú í febrúar sendu Náttúruverndarsamtök Íslands bréf til umhverfis- og auðlindaráðuneytis með ósk um skýr svör við því hvernig eigi að ná markmiðum um samdrátt gróðurhúsalofttegunda sem boðaðar hefur verið. Því erindi hefur enn ekki verið svarað. Það er áhyggjuefni. Í þessu máli þurfa fulltrúar allra flokka að leggjast á eitt til að ná þeim markmiðum sem við höfum samþykkt. Það að Ísland verði kolefnishlutlaust 2050 er mjög raunhæft markmið. Í raun og veru hefði ég viljað sjá þetta ártal miklu fyrr. En með því að leggja til þetta ártal fylgjum við þingmenn Vinstri grænna, sem leggjum þetta fram, alþjóðlegum straumum. Helst mundi ég vilja segja í síðasta lagi 2050 í þessari framsögu. Ég minni á að Norðurlandaráð gaf nýlega út skýrslu um þær leiðir sem okkur eru færar til að ná þessu markmiði. Þar er miðað við ártalið 2050. En við þurfum að átta okkur á því að til þess að ná t.d. markmiðinu um 1,5°, þ.e. að hlýnunin fari ekki yfir 1,5°, þurfum við, Ísland, Noregur og Evrópusambandsríkin, að horfa til þess markmiðs að draga úr losun um 55% fyrir 2030, þ.e. ekki endilega ná kolefnishlutleysi en hafa náð henni niður um 55%.

Hvað getum við gert? Það er í senn hægt að draga úr losun og auka kolefnisbindingu. Það er með ráðum gert að við leggjum ekki til aðgerðaáætlun því að við leggjum áherslu á að slík aðgerðaáætlun sé unnin annars vegar með aðkomu sérfræðinga og hins vegar í sem bestri pólitískri sátt um þetta markmið. Ég held að við þurfum að horfast í augu við það að þó að flokkar leggi mismikla áherslu á umhverfismál í stefnumálum sínum eru loftslagsbreytingar þannig viðfangsefni að það er skylda okkar að reyna að ná sem bestri þverpólitískri sátt um þau mál. Ýmislegt hefur verið gert. Ég nefndi að hér hafa orkuskipti verið rædd. Að sjálfsögðu þarf að huga að því. Það þarf að huga að því hvernig við getum t.d. dregið úr losun frá flugsamgöngum. Hvernig getum við dregið úr losun frá skipaumferð? Þar hafa til að mynda sjávarútvegsfyrirtæki farið í ýmsar aðgerðir í flotanum til þess að vinna að því að draga úr losun. En þetta þurfum við að skoða. Er eðlilegt hve flugfargjöld geta verið ódýr? Greiðum við fyrir raunverulegt vistspor af flugsamgöngum? Þetta er ekkert vinsæl umræða því að eðlilega finnst öllum gott að geta keypt ódýr flugfargjöld, en þetta er umræða sem við þurfum að taka í tengslum við slíka aðgerðaáætlun.

Það er mikilvægt að skoða hvernig við ætlum að beita skattheimtu til þess að skapa eðlilega hvata til að dregið verði úr losun. Hér var í gær orkuskiptaáætlun sem snerist kannski fyrst og fremst um samgöngur og orkuskipti í samgöngum. En það er mikilvægt að horfa til þess hvað hefur verið gert og hvaða árangur þær aðgerðir hafa borið sem ráðist hefur verið í, t.d. hvaða árangur það hefur borið að ýta undir umferð hjólandi, svo dæmi sé tekið, í höfuðborginni. Hvaða áhrif hefur það að efla almenningssamgöngur? Hvaða áhrif hefur það að draga úr þjónustu í almenningssamgöngum, o.s.frv.?

Það er líka mikilvægt að hluti af þessari áætlun snúist um það hvernig við rekum t.d. ríkisstofnanir. Hvert er vistsporið í því hvernig við rekum opinberar stofnanir? Getum við gengið á undan með góðu fordæmi í því, til að mynda í innkaupum ríkisins? Er eðlilegt að allar opinberar stofnanir taki ákveðin græn skref í rekstri sínum til þess að draga úr loftslagsáhrifum? Þetta er hluti af málinu. Við þurfum að velta fyrir okkur hvernig við getum aukið kolefnisbindingu sem best og þá vitna ég til endurheimtar votlendis, landgræðslu og skógræktar eins og hefur verið talsvert rætt um. Allt skiptir þetta máli, hvort sem við erum að tala um iðnaðinn, flugsamgöngur, sjávarútveginn, hefðbundnar samgöngur, einstaklinga og síðan bindingarhlutann en líka hinn almenna rekstur. Við höfum rætt að jafnréttismál eigi að vera hluti af stefnumótun hins opinbera í öllum geirum, eiga loftslagsmálin ekki að vera hluti af stefnumótun hins opinbera í öllum geirum? Er verið t.d. að fjárfesta í farartækjum sem eru eins umhverfisvæn og mögulegt er? Eru veittir bílastyrkir frekar en hjólastyrkir, svo dæmi sé tekið? Lítil og stór mál.

Við ræðum búvörusamning og tollasamning á næstunni. Hver eru loftslagsáhrifin af því? Hver eru loftslagsáhrifin af því að flytja matvæli yfir hálfan hnöttinn til Ísland, meðan við gætum hugsanlega ræktað þessi matvæli sjálf með talsvert minni umhverfisáhrifum?

Ég nefni ýmsar aðgerðir sem við getum ráðist í. En stóra málið er að við höfum undirgengist ákveðnar skuldbindingar. Við eigum eftir að fullgilda þær skuldbindingar, eins og ég sagði áðan, og það er mjög mikilvægt að það verði gert, helst á þessu þingi eins og er búið að lofa okkur af tveimur ráðherrum ríkisstjórnarinnar þó að mér vitanlega hafi málið ekki enn verið lagt fram. Við þurfum að hafa skýra sýn á það hvernig við ætlum að ná þessum skuldbindingum, standa við þær. Það er auðvitað ekki í lagi að við fáum ekki svör, skýr svör um þessar aðgerðaáætlanir. Það er auðvitað heldur ekki í lagi að þær séu ekki unnar í eins opnu og gagnsæju ferli og hugsanlegt er með sem breiðastri aðkomu. Loftslagsmál eiga ekki að vera einkamál einhvers eins flokks eða tiltekinna stjórnmálamanna, þau eiga að vera unnin í sem víðtækustu samráði. Við vitum líka að í þessum geira þurfum við að vera mjög meðvituð um að rannsóknir og ný þekking eru stöðugt að skila breyttri sýn á það hvaða aðgerðir nákvæmlega duga best. Við þurfum að vera tilbúin til að horfa á málin með því hugarfari að það sem við töldum best fyrir tíu árum er ekki endilega best í dag miðað við nýjustu rannsóknir og þekkingu. Þess vegna skiptir máli að við séum með umræðu um þetta á þinginu og hún nái út í samfélagið, því að það er líka mikilvægt að almenningur taki þátt í slíku.

Hér er þessi áætlun lögð til og ég sé í raun og veru ekkert því til fyrirstöðu að við gætum samþykkt hana. Hún er í takt við það sem er að gerast annars staðar á Norðurlöndum, í takt við þær skuldbindingar sem við höfum þegar sett og hún býður upp á að við efnum í slíkt samráð þannig að við náum raunverulegum árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og getum sagt með sanni að við höfum þá uppfyllt þær skuldbindingar sem við höfum þegar undirgengist.

Tími minn er á þrotum, herra forseti. Að lokum vil ég segja að mér finnst mikilvægt að þessi málaflokkur hljóti skýran sess í stjórnsýslunni. Loftslagsmálin heyra undir umhverfisráðuneytið. Mörg ríki hafa farið þá leið að vera með sérstakan loftslagsmálaráðherra. Ég veit ekki hvort það er þörf á því á Íslandi. En kannski ættu loftslagsmálin að vera undir forustu forsætisráðuneytis til að sýna pólitískt mikilvægi, eftir því hvernig við metum þennan málaflokk. Eins og ég sagði áðan reiðir Ísland sig á náttúruauðlindir sínar, við erum örugglega sú þjóð sem talar mest í heimi um veðrið. Ég held að við getum horfst í augu við það að þetta mál á eftir að skipta okkur gríðarlega miklu máli í framtíðinni. Það þarf að hljóta þann sess sem því ber í pólitískri umræðu.