145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

353. mál
[16:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór stuttlega yfir svar sem hann fékk frá ráðherra á sínum tíma og það er vissulega athyglisvert. Hv. þingmaður fer hins vegar stórum yfir því að notkun fólksbíla sé ekki stærsti liðurinn og mælist samkvæmt plaggi sem ég er með fyrir framan mig 13% sem er þó þriðji stærsti einstaki liðurinn. Í öðru sæti er landbúnaður en í fyrsta sæti er iðnaður/efnanotkun með 42%. Með hliðsjón af ágætri ræðu hv. þingmanns velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður sé þá hlynntur ríkisafskiptum og ívilnunum með tilheyrandi skattbyrði og því um líku til að takmarka losun í þeim lið, þ.e. iðnaði/efnanotkun.

Almennt langar mig líka að spyrja hv. þingmann almennt hvernig hún sjái fyrir sér ríkisafskipti og tilheyrandi skattinnheimtu sem hluta af því að leysa þetta vandamál. Ég fæ ekki séð að þetta leysist á markaðsforsendum einum og sér. Sömuleiðis er hægt að benda á annan lið hér sem heitir aðrar samgöngur en með fólksbílum sem er 5,2%. Umferð fólksbíla og aðrar samgöngur en með fólksbílum eru þá samtals 18,2% sem væri næststærsti liðurinn ef við tækjum það saman og er þá klárlega umtalsverður hluti.

Telur hv. þingmaður í öðru lagi ekki mikilvægt að stuðla að þeirri framþróun að í fyrsta lagi séu innviðir og í öðru lagi tæknin tekin upp sem þarf til að draga úr losun koltvísýrings þegar kemur að fólksbílum og öðrum samgöngum líka? Er það eitthvað sem hv. þingmaður telur tíma- eða peningasóun með hliðsjón af því að þetta eru þó 13–18,2%?