145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

353. mál
[16:23]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég nefndi í ræðu minni skiptist heildarlosun Íslendinga þannig að einungis 4% stafa frá bílum. Svar hæstv. umhverfisráðherra til mín er nokkuð tyrfið eins og vænta mátti miðað við hvernig umræðan hefur verið. Ég þurfti að leggja fram fyrirspurn um þetta atriði nokkrum sinnum til að fá raunverulega rétt svar. Hv. þingmaður er kannski að vísa til töflu sem kveður á um bókhald vegna Kyoto-bókunarinnar. Losun vegna framræsts lands er ekki inni í Kyoto-bókuninni. Hún er þar fyrir utan. Allt að einu samþykkti loftslagsnefndin — það var reyndar að tillögu og af töluverðum vísindarannsóknum Íslendinga — árið 2013 að samt sem áður væri heimilt að telja endurheimt votlendis til þeirra þátta þegar kemur að því að draga úr losuninni.

Hér er ég spurð hvort mér hugnist ekki ívilnanir í iðnaði. Látum þessar prósentutölur liggja á milli hluta. Eins og ég kom inn á í ræðu minni er alltaf hætta á að menn gefi sér að einhver ein tiltekin lausn sé töfralausn í umhverfismálum. Fyrir nokkrum árum voru það dísilbílarnir. Þá áttu allir menn að fara að keyra á dísilbílum. Menn fóru að gera það. Svo kemur í ljós að þeir menga meira. Nú eru það rafbílarnir. Hreinræktaðir rafbílar njóta mestrar velþóknunar og menn kalla eftir aðgerðum ríkisins í þeim efnum. Ég tel alveg tvímælalaust að rafbílavæðingin eigi eftir að halda áfram en ég tel hins vegar einboðið fyrir þá sem eru að selja og markaðssetja rafbíla, svo ég taki dæmi, (Forseti hringir.) að taka meiri þátt í innviðauppbyggingu hvað þetta varðar. Ég hef ekki trú á því að lausnin í þessu felist í einhverjum ívilnunum eða neyslustýringu eða sértækum aðgerðum stjórnvalda í þessu.