145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

353. mál
[16:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór stuttlega yfir það í ræðu í gær að ég tel lausnina vera margþætta og ég tel hana blöndu af ríkisafskiptum með skattheimtu og peningaútlátum á þann máta að það laði og hvetji almenning og hagkerfið, ef við getum komist svo að orði, til að taka þátt í að laga þennan vanda. Ég velti fyrir mér hvað það er sem hv. þingmaður mundi leggja til ef það að endurheimta votlendi er það eina sem hv. þingmaður mundi styðja til þess að leysa vandann. Ef ekki það, þá hvað?

Sem dæmi er núna þrýstingur á að endurgreiða virðisaukaskatt enn frekar af rafbílum. Það er nokkuð sem ég styð og ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður styðji það. Ég veit að hv. þingmaður er á móti neyslustýringu og líka sá sem hér stendur almennt. Almennt finnst mér neyslustýring mjög vond og óþægileg. Það er þó eins og með allt slíkt, maður getur ekki hamrað endalaust á sama prinsippinu alveg óháð aðstæðum. Aðstæðurnar sem við erum í núna eru þær að við munum fá yfir okkur miklar loftslagsbreytingar sem munu hafa mjög víðtæk og alvarleg áhrif á jörðina. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður trúir þessu eða ekki. Það væri gott að fá svar við því í leiðinni ef spurningin er ekki móðgandi, og jafnvel þótt svo væri.

Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmaður vill gera vegna þess að ég heyri ekkert nema endurheimt votlendis. Ókei, þurfum við ekki ríkisafskipti til þess? Þarf ekki að skattleggja eitthvað til þess? Þarf ekki einhvern veginn að neyslustýra til þess? Að hvaða marki er hv. þingmaður reiðubúinn til að fara þessar leiðir til að kljást við þetta vandamál?