145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

stefnumörkun og aðgerðaáætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050.

353. mál
[16:30]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu sem hefur verið um þessa tillögu og er mjög þakklát þeim hv. þingmönnum sem hafa áhuga á að ræða þessi mál. Mér finnst mjög bagalegt hve lítil umræða hefur verið um þau áður og að sjálfsögðu hefði ég viljað sjá hæstv. umhverfisráðherra koma fram með aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að ræða hana við okkur hv. þingmenn. Eins og ég sagði er þetta mál sem þarf að ná sem bestri þverpólitískri sátt um en, eins og sést á þeim umræðum sem hér voru áðan, höfum við auðvitað líka ólíkar hugmyndir um það hvernig við náum best þeim markmiðum sem við höfum þegar undirgengist, þ.e. að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Ég sagði í ræðu minni áðan að það væri mikilvægt að horfa á það hvað nýjasta þekking og rannsóknir hafa gefið okkur og kom m.a. í ræðu til að ítreka það sem hv. þm. Sigríður Andersen sagði, að endurheimt votlendis er mikilvægur þáttur til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það kom inn í loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna í gegnum Ísland. Þetta er ekki bara mál sem lýtur að loftslagi, þetta er líka stórt náttúruverndarmál. Þetta er óneitanlega mikilvægur þáttur.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson velti því upp í andsvari að það hlyti að vera eitthvað fleira. Já, auðvitað eru fjöldamargir þættir. Við þurfum að horfa á samþættar aðgerðir ólíkra geira. Af því að ég nefndi það ekki í framsögu minni finnst mér rétt að taka fram hér að það er heldur ekki nægjanlegt að við á þingi ræðum þetta okkar á milli og að við ræðum þetta við sérfræðingana af því að það er mjög mikilvægt líka að við fáum atvinnulífið með okkur í þetta samtal. Þá er ég bæði að vitna til atvinnurekenda og launþegahreyfingarinnar, við þurfum að skoða saman hvað atvinnulífið getur lagt af mörkum til að ná þessu markmiði.

Menn tala um ríkið, markaðinn og eitthvað slíkt. Ég segi fyrir mína parta: Þetta mál verður ekki leyst nema við gerum það á samfélagslegum grunni þar sem stjórnvöld verða að hafa forustu um hvaða leiðir eigi að fara til að virkja atvinnulíf og allan almenning með í þetta verkefni.

Hér hefur talsvert verið rætt um það að ein aðgerð megi ekki valda meiri skaða á öðrum vettvangi og við ræddum um staðbundna mengun og síðan alþjóðlega mengun. Við getum rætt um að því hefur verið haldið fram að skipaferðir yfir norðurskautið sem er að bráðna, m.a. vegna loftslagsbreytinga, munu draga úr loftslagsáhrifum af því að þær stytti skipaleiðir. Þær munu hins vegar um leið stórauka staðbundna mengun á þessu viðkvæma vistkerfi. Auðvitað getum við ekki horft á þetta mál einangrað. Við þurfum að horfa á það út frá heildstæðri nálgun. Það á við um ótal marga þætti. Við á Íslandi erum t.d. ekkert mikið að ræða afleiðingar matarvenja okkar á loftslag sem er mjög stórt umræðuefni annars staðar í heiminum. Kannski af því að við búum við það að vera tiltölulega fá í mjög stóru landi. Við höfum ekkert miklar áhyggjur af því hvernig okkar kjötneysla kemur til. Svo horfum við á önnur svæði í heiminum þar sem er verið að ryðja burt regnskógum í stórum stíl til að rækta nautgripi sem enda svo í hamborgurum. Kjötát er meðal þeirra þátta sem þyrfti að horfa til. Nú lít ég á hv. þingmann með þýðingarmiklu augnaráði þó að það sé kannski minna mál staðbundið á Íslandi en annars staðar í heiminum.

Auðvitað hefur þetta samt allt áhrif. Við getum talað líka almennt um neysluna, það er enginn að segja að við getum ekki dregið úr neyslu án þess að draga úr lífsgæðum okkar. Ég þekki það sjálf. Allir sem eiga börn þekkja það gjörsamlega yfirþyrmandi magn af ýmiss konar leikföngum sem eru í boði fyrir börn. Horfum t.d. á það hvort muni hafa meiri umhverfisáhrif legókubbarnir sem eru enn við lýði og ég lék mér með sem barn og systkini mín á undan og eru enn þá bara nokkuð góðir (Gripið fram í.) og endast og virka eða dót sem væntanlega er framleitt með ærnum tilkostnaði fyrir umhverfi og samfélag en eyðileggst eftir fyrstu notkun. Auðvitað skiptir máli hvernig við neytum og að við hugsum um það. Það sem ég legg hins vegar áherslu á er að þetta er verkefni sem verður ekki leyst nema allir taki þátt í því. Mér finnst mikilvægt að nefna líka atvinnulífið í því samhengi. Ég verð ekki vör við annað en að ýmis stórfyrirtæki hér á landi, smáfyrirtæki og meðalstór fyrirtæki séu tilbúin að fara í þetta starf með okkur. Þar verða auðvitað stjórnvöld að veita málinu forustu þannig að ég ítreka það að lokum sem hefur aðeins borið hér á góma, og er mér að meinalausu, að ályktuninni verði beint til ríkisstjórnarinnar allrar. Í sjálfu sér væri ekkert óeðlilegt að forsætisráðherra í ríkisstjórn tæki þetta mál upp á sína arma og veitti því forustu. Þetta varðar samgöngumál, iðnað, umhverfismál að sjálfsögðu og þá ekki síst í tengslum við það sem við höfum verið að ræða um bindingu en ekki síður hvað er að koma frá iðnaði og samgöngum. Málið varðar landbúnaðarráðherra. Þetta varðar alla þessa ráðherra. Ef við erum að tala um einhvers konar vitundarvakningu, þannig að við veltum fyrir okkur hvernig við neytum og hvað við gerum og lærum að taka dálítið gagnrýna afstöðu til þess hvað í raun skilar árangri, varðar þetta líka skólakerfið.

Það er ýmislegt sem hefur áhrif. Mér finnst að sjálfsögðu þurfa að forgangsraða hvernig ríkið ver fjármunum sínum í að tryggja innviði og annað slíkt. Að sjálfsögðu geta einkaaðilar komið að því, alveg eins og einkaaðilar selja okkur bensín í dag ættu þeir að geta selt okkur rafmagn á morgun, þannig séð, ef við horfum á þetta út frá samgöngum.

Ég held að við verðum líka að horfast í augu við það að stjórnvöld geta ekki komist hjá því að verja fjármunum til þessa verkefnis. Ef þau gera það ekki mun sá kostnaður falla á stjórnvöld seinna þegar kemur að því að reyna að laga okkur að þeim breytingum sem verða. Það er umræða sem verður æ meira áberandi á alþjóðavettvangi, það sem kallað er aðlögunin að því hvernig við ætlum að eiga við loftslagsbreytingar. Þar verja stjórnvöld heimsins ótrúlegum fjármunum nú þegar í að reisa flóðgarða og koma í veg fyrir ýmsar afleiðingar.

Það er líka staðreynd sem varðar okkur reyndar ekki á Íslandi en er þekkt í alþjóðlegu samhengi og var t.d. talsvert í umræðunni á loftslagsfundinum í París að stjórnvöld heimsins styðja meira, með opinberum fjármunum, við kolavinnslu og olíuvinnslu en endurnýjanlega orkugjafa. Þrátt fyrir að hafa undirritað alls konar yfirlýsingar um að þau vilji skipta þessum óendurnýjanlegu orkugjöfum út fyrir endurnýjanlega orkugjafa eru þau að styðja — ef við bara eltum peningana sjáum við að þeir eru að fara til óendurnýjanlegu orkugjafanna. Stjórnvöld hafa svo sannarlega áhrif með neyslustýringu og þá er ég ekki að vitna bara í Ísland, við sjáum það ef við horfum á stjórnvöld í heiminum sem eru sannarlega að neyslustýra eins og staðan er núna. Þau neyslustýra fólki í átt að kolum og olíu en ekki að endurnýjanlegum orkugjöfum ef við horfum á það hvert peningarnir fara.

Allt þarf þetta að vera uppi á borðum. Mér finnst mikilvægt, eins og hér hefur verið rætt, að staðreyndirnar séu uppi á borðum. Þetta er ein af staðreyndunum sem eru uppi á borðum í dag. Það er verið að selja þessa orkugjafa í raun og veru á útsöluverði vegna loftslagsmarkmiðanna og vegna þess að menn sjá fram á að kannski verði ekki eftirspurn eftir þeim til lengri tíma.

Herra forseti. Þetta er góð umræða og ég þakka fyrir hana. Ég vonast svo sannarlega til þess að þingið sjái sér fært að afgreiða tillöguna af því að ég held að hún geti verið undirstaða fyrir gott samtal í samfélaginu um það hvernig við ætlum að ná þessum markmiðum sem við erum þegar búin að segjast ætla að ná.