145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[16:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýrt svar í upphafi andsvars síns.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það er ekki ásættanlegt að þingmenn eða stjórnmálamenn hunsi vilja almennings. Vandinn er sá að þeir gera það bara samt, alveg sama hversu hundóánægður maður er með það og alveg sama hversu hundóánægður almenningur er með það enda vitum við að hérna var framin alla vega tilraun til þess að slíta þessum viðræðum af hæstv. þáverandi utanríkisráðherra á sínum tíma þrátt fyrir mótmælin, þrátt fyrir tillögu um að setja þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu og þrátt fyrir teikn á lofti um að þjóðin mundi hafna inngöngu í ESB á endanum, alla vega miðað við þær aðstæður sem þá ríktu og ríkja væntanlega enn þá, í það minnsta samkvæmt skoðanakönnunum. Þá hefði verið kjörið tækifæri til þess að kála málinu endanlega hefði maður haldið, ef menn treystu sér í umræðuna sem ég hygg að þeir geri ekki þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. ef hún er bindandi.

Ástæðan fyrir því að mér þykir svo mikilvægt að svona hlutir séu bindandi er sú að mér finnst stjórnmálin ekki ásættanleg eins og þau eru. Ég er fæddur árið 1980. Alla mína tíð hefur fólk kvartað undan því að stjórnmálamenn standi ekki við neitt og um leið og kosningum lýkur þá sé allt svikið. Þetta er orðræða sem hefur alltaf verið til staðar. Ég er ekki sáttur við orðræðuna hvort sem hún er sönn eða ekki, vegna þess að hún dregur svo mikið úr tiltrú á stjórnmálunum. En vandinn er sá að þessi skortur á tiltrú er að verulegu leyti réttmætur. Það er vegna þess að stjórnmálamenn geta einfaldlega hunsað þjóðarvilja og gera það. Það er tilfellið sama hvort okkur líkar vel við það eða ekki.

Sömuleiðis er sannfæringarfrelsi þingmanna auðvitað í stjórnarskrá lýðveldisins sem verður ekkert trompað með einhverri tillögu. Þess vegna finnst mér enn þá mikilvægara að svona tillögur hafi beinar lagalegar afleiðingar, afleiðingar sem verða til við ákvörðun þjóðarinnar sjálfrar.