145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[17:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins meira inn í þessar ágætu umræður um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur og ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Hv. þingmaður fór stuttlega inn á að það væri ekki víst að Evrópusambandið vildi halda áfram umræðunum. Svo heyrðist mér hv. þingmaður kvarta undan því að þau, þ.e. Framsóknarflokkurinn væntanlega, eða stjórnarflokkarnir, væru sökuð um eitthvert tilræði. Það vita allir að hæstv. utanríkisráðherra á þeim tíma gerði tilraun til að slíta þessu og básúnaði það í fjölmiðlum að núna væri þessu lokið o.s.frv. Hann gerði þetta. Það þýðir ekkert að rífast um það. (Gripið fram í: Það var búið að slíta viðræðum.) Ja, sá hæstv. ráðherra sá alla vega tilefni til þess að senda þetta bréf og lýsa því þannig í fjölmiðlum að þá væri málinu lokið og að sú aðgerð hefði átt þátt í því. Það var alveg skýrt. Og aftur: Það þýðir ekkert að rífast um það. Þetta gerðist, það sáu þetta allir.

En burt séð frá því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki best að klára þetta mál einfaldlega með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þessi vilji verður skýr og þá er málið saltað, væntanlega þar til aðstæður breytast aftur. Því að þetta heldur áfram að vera bitbein. Ég veit að hv. þingmaður er fullkomlega sannfærður í sinni afstöðu og það er góðra gjalda vert og var það auðvitað líka fyrir einhverjum árum síðan, væntanlega á þeim forsendum sem þá voru uppi. En ég hygg að þetta verði áfram í umræðunni, þetta verður áfram kosningamál. Er ekki kominn tími til að útkljá málið og samþykkja þingsályktunartillögu sem felur hæstv. utanríkisráðherra að taka upp samninga aftur og sjá hvernig því lýkur? Setja skilyrði þingsályktunartillögunnar um að þjóðin verði að samþykkja það líka og þar af leiðandi skilyrði um samþykki Alþingis, greiða atkvæði um þetta og klára það? Er ekki hv. þingmaður sannfærður um að þjóðin mundi segja nei?