145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[17:14]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningunni sem beint er til mín er hvort ekki væri gott að útkljá málið í eitt skipti fyrir öll, (Gripið fram í.) fyrir næstu áratugina. Málið er að Bretar gengu meira að segja í Evrópusambandið. En spurningin var ekkert útkljáð. Sjálfstæði og fullveldi þjóðar er aldrei útkljáð mál. Á meðan við erum fullvalda og sjálfstæð þjóð mun alltaf hluti íbúa landsins segja: Kannski væri betra að tilheyra einhverju stærra dæmi, vera hluti af einhverju stærra fullveldi, vera með í þessu nýja hernaðarbandalagi sem Evrópusambandið er að verða. Í viðtali við Die Welt talar Juncker opinskátt um það að mikið væri gott að hafa her til að geta aðeins staðið uppi í hárinu á Rússum. Þetta er raunverulega á vef BBC, þið getið flett þessu upp. Árið 2015 talað hann um að mikið væri það gott ef það væri evrópskur her. Þetta er andi leiðtoganna í þessu sambandi. Við verðum ekki í neinum færum til að hafa áhrif á stefnu þessa sambands sem minnsta aðildarríkið. Bretland sem er miklu stærra aðildarríki en við getum nokkurn tíma orðið ákvað að hætta því að þeir geta ekki haft nein áhrif. Þess vegna eru þeir að ganga úr Evrópusambandinu. Það ættu að vera mikilvæg skilaboð fyrir okkur.

Ég held að spurningin um fullveldi og sjálfstæði þjóðar muni aldrei verða útkljáð meðan til er ríkjabandalag sem býður hinum fullvalda og sjálfstæðu þjóðum að ganga í sambandið. Það er það sem veldur þessu. Ef enginn væri að bjóða okkur inn væri enginn hópur að sækja um, hér er enginn að sækja um inngöngu í Bandaríkin eða Kína eða Rússland. Hugsanlega væri það, en það (Gripið fram í.) verður alltaf umræða um þetta. Ég er til í hana. En svo lengi sem hún er mun ég berjast gegn því að við munum láta af hendi fullveldi og sjálfstæði landsins.