145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

827. mál
[17:41]
Horfa

Flm. (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Þó svo að ekki hafi margir hv. þingmenn tekið þátt í henni hefur hún verið mjög lífleg og sýnir kannski ágætlega fram á hvað Evrópusambandið er stórt mál, hvað það kemur víða við og hvað það hefur margt að segja um íslensk stjórnmál, íslenskan veruleika. Staðreyndin er sú að Evrópusambandið er stærsta ríkjabandalag okkar heimshluta og hefur þróast mjög mikið á þeim áratugum sem það hefur verið til.

Ákvörðun Breta, eins og hv. þingmaður benti á áðan, í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um að ganga úr Evrópusambandinu í svokölluðu Brexit-kosningunni er enn ein þróunin í þróunarferli Evrópusambandsins. Evrópusambandið gengur fyrst og fremst út á fjórfrelsið, sameiginlegan markað 500 milljón manna í tæplega þrjátíu löndum núna. Þetta fjórfrelsi hefur Íslendingum þótt eftirsóknarvert. Íslendingar gengu í þetta samband að miklu leyti með EES-samningnum og ánægja okkar hefur almennt verið nokkuð góð með að hafa þetta aðgengi að markaðnum. Þrátt fyrir að það sé vissulega dálítið skrýtið að við tökum upp bunka af reglugerðum og löggjöf sem við tökum vissulega beint upp frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn og EES-aðlögun hérna, þá er mjög mikið af þeirri löggjöf, sérstaklega þegar kemur að umhverfismálum, heilbrigðismálum, neytendamálum o.s.frv., mjög kærkomin viðbót við íslenska löggjöf og hefur í raun og veru gert okkur kleift að hafa miklu fullkomnari löggjöf en við ættum auðvelt með að þróa ein og sér.

Umræðan um Brexit-kosningarnar í Bretlandi og þá ákvörðun, sem kom mjög mörgum á óvart að Bretar skyldu taka, að ganga úr Evrópusambandinu, sýndi kannski fram á að menn hafa meiri trú á Evrópusambandinu sem stöðugleikaverkfæri en mætti halda frá almennri umræðu. Efasemdarmenn um Evrópusambandið hafa vissulega verið mjög háværir í umræðunni, sérstaklega eftir efnahagshrunin 2008, sér í lagi efnahagsvandræðin í Grikklandi og vandræði evrunnar á þessum árum. Samt er þeirri ákvörðun Breta að segja sig frá Evrópusambandinu almennt tekið sem óvissuákvörðun, að Bretland sé að sigla inn í óvissutíma. Þessi ákvörðun hefur haft mjög neikvæð áhrif á gengi breska pundsins og frekar valdið usla en hitt. Það er dálítið merkilegt að upplifa það meira að segja á Íslandi þar sem hafa mælst í skoðanakönnunum efasemdir um að við eigum að ganga í Evrópusambandið hrátt og án þess að vita nákvæmlega hvernig samningurinn lítur út. Meira að segja hér hefur umræðan um Brexit verið í þá áttina að við séum að sigla inn í meiri óvissutíma í Evrópu og okkar nágrenni heldur en hitt. Það þykir mér vera merki um þann hug sem við berum raunverulega til Evrópusambandsins. Og eins og hv. 10. þm. Reykv. n. benti á áður þá hefur evran, sem er gjaldmiðill mörg hundruð milljón manna samfélags, þrátt fyrir allt verið sterk og stöðugri en flestir gjaldmiðlar í heiminum síðustu árin, eftir 2008, þó svo að hún hafi vissulega gengið í gegnum ýmsar hremmingar.

Mig langar að nota síðustu mínúturnar af ræðu minni til að ræða hvað flutningsmönnum þessarar tillögu gengur til með að leggja til að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin meðfram alþingiskosningum 29. október. Vissulega skal ég taka undir með hv. þingmönnum sem hafa talað að það er stuttur fyrirvari á þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri sérstaklega stuttur fyrirvari á þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem ekki hefði verið mikið rætt og væri ekki vel þekkt í íslensku samfélagi. En það vill svo til að umsóknaraðildin að Evrópusambandinu eða samningaviðræður við Evrópusambandið í fjögur ár gera það að verkum að Íslendingar hafa ágæta hugmynd um Evrópusambandið og um hvað ræðir. Ástæðan fyrir því að 29. október er tekinn fram í tillögunni er sú að það er dagsetningin sem hefur verið í umræðunni fyrir þingkosningar núna í haust. Það er tekið fram sérstaklega í greinargerðinni að breytist sú dagsetning, því að hún er vissulega ekki fastákveðin enn þá, verði þessari tillögu breytt til samræmis við það. Hugsunin er að tengja þessa þjóðaratkvæðagreiðslu við alþingiskosningar. Bæði er það gert í hagræðingarskyni, til að nota ferðina ef svo má að orði komast, að kjósa um þetta málefni um leið og við göngum til kosninga þar sem hægt er að reikna með því að stór hluti þjóðarinnar muni greiða atkvæði hvort sem er, en líka til að tengja það þingkosningum frekar en öðrum kosningum. Ég held að mikilvægt sé að niðurstaða úr þessari þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er um áframhald á viðræðum sem eru ákveðnar með samþykkt Alþingis, að þessi leiðbeining komi fram við þingkosningar og verði leiðbeining handa nýju Alþingi sem komi saman eftir þær kosningar. Það er ástæðan fyrir því að við leggjum þessa tillögu fram. Hún er ekki lögð fram í fyrsta skiptið núna. Hún er í raun og veru orðrétt, fyrir utan dagsetninguna, endurtekning á tillögu sem var lögð fram á síðasta löggjafarþingi, þá 626. mál, en það náði ekki fram að ganga þá. Þá var gert ráð fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðslan mundi eiga sér stað meðfram forsetakosningum núna í sumar en nú eru næstu kosningar sem sé áætlaðar 29. október og því leggjum við tillöguna fram og miðum við þá dagsetningu.

Ég endurtek að væri þetta nýtt mál sem þyrfti alvarlegrar og mikillar kynningar við hjá þjóðinni gæti ég vissulega tekið undir að þetta væri stuttur fyrirvari en þar sem hér er um mál að ræða sem hefur verið eitt stærsta málið í íslenskri umræðu a.m.k. síðan 2009 tel ég að íslenskum kjósendum sé vel treystandi fyrir því að taka afstöðu til spurningarinnar: Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar, já eða nei? Ég held að íslenskum kjósendum sé vel treystandi til að mynda sér skoðun á þeirri spurningu á þeim tveimur mánuðum sem eru væntanlega fram að alþingiskosningum 29. október.

Ég hef lokið máli mínu, takk.