145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

aðild Íslands að Geimvísindastofnun Evrópu.

804. mál
[18:00]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er einn af meðflutningsmönnum á tillögunni þannig að það kemur kannski ekki á óvart að ég sé meðmæltur henni. Ég þakka hv. 10. þm. Reykv. n. fyrir ágæta framsögu. Ég tek undir með hv. þingmanni að þátttaka í alþjóðlegu verkefni á borð við Geimvísindastofnun Evrópu getur verið mjög mikill hvati fyrir íslenskt vísinda- og tæknilíf. Ég minnist þess að þátttaka Íslendinga í sameiginlegum evrópskum verkefnum á borð við MEDIA-áætlunina var ein af grundvallarstoðunum undir þann risastóra kvikmynda- og sjónvarpsiðnað sem Ísland hefur þróað með sér á tiltölulega stuttum tíma, þannig að ég fagna þessari hugmynd. Mig langaði til að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi mótaðar hugmyndir um það hvernig þátttaka Íslands í Geimvísindastofnuninni færi fram, hvort það séu ákveðnar stofnanir, háskólar, sem hann hafi í huga eða fyrirtæki jafnvel eða hvort það sé útfærsluatriði sem hann sjái fyrir sér að leysist síðar.