145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

náttúruvernd.

87. mál
[18:04]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd. Einhver kynni að segja að þetta sé mjög lítið mál vegna þess að það er mjög stutt, en þetta er hins vegar stórmál. Það er svo stutt að ég get lesið það án þess að taka mikinn tíma frá þinginu. Það hljómar svo, virðulegi forseti:

Á eftir 1. mgr. 17. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Öllum sem fara um hálendið og þjóðvegi landsins er óheimilt að fleygja rusli eða öðru þess háttar á almannafæri nema í þar til gerð ílát. Brot á ákvæði þessu varðar refsingu, sbr. 90. gr.

Og í 90. gr. kemur, virðulegi forseti:

Það varðar mann sektum að lágmarki 100.000 kr. ef hann brýtur ákvæði 2. mgr. 17. gr.

Lög þessi, ef þau ná fram að ganga, öðlast þegar gildi.

Hér er um það að ræða að okkar mestu verðmæti felast í náttúrunni af mörgum ástæðum. Núna kemur það beint fram í því að stærsta atvinnugreinin okkar sem skapar mestu útflutningstekjurnar er ferðaþjónustan. Ástæðan fyrir því að fólk vill koma hingað er sú að því finnst náttúra Íslands falleg, en hún er ekki falleg nema við göngum skynsamlega um hana og erum ekki með sóðaskap. Ég fékk hugmyndina að þessu frumvarpi þegar ég keyrði um fylki Bandaríkjanna þar sem á mörgum stöðum er afskaplega snyrtilegt, en maður sér líka reglulega þegar maður keyrir um þjóðvegina, sem oft eru í gegnum eyðimerkur eða ýmsa stórbrotna og fagra staði, að þar stendur á skiltum að fólk þurfi að borga óheyrilega háar fjárhæðir í sekt ef það hendir rusli. Þetta eru skýr skilaboð.

Einhver kynni að spyrja hvort þetta fari ekki gegn því sem ég hef oft talað um á þessum vettvangi, þ.e. frelsi. Ég held að því sé öfugt farið því að frelsinu fylgir ábyrgð. Það er alveg ljóst að þeir sem henda rusli búa til gríðarlega mikil útgjöld fyrir hið opinbera, fyrir skattgreiðendur, vegna þess að það er dýrt að tína upp eftir þess háttar sóðaskap.

Þessi tillaga fékk nokkra umræðu þegar ég kynnti hana fyrir nokkrum mánuðum síðan. Þá kom m.a. fyrrverandi borgarstjóri sem lét sig þessi mál varða og taldi þetta eiga við meira en bara víðernin, þ.e. ekki síður borgarsamfélögin og sveitarfélögin. Mér finnst það vera sjónarmið sem menn þurfa að ræða. Miðað við umræðuna sem skapaðist þá skildist mér að hægt væri að hafa svona ákvæði í lögreglusamþykktum nú þegar. Umgengnin er orðið vandamál á mörgum svæðum, t.d. í okkar ástkæru höfuðborg, Reykjavík.

Ég heyrði í einum atvinnurekanda sem sagði mér að ferðamenn hefðu stoppað hann um daginn og spurt hann hvort borgarstarfsmenn væru í verkfalli. Hann kannaðist ekki við það og spurði af hverju væri spurt að því. Það var til komið vegna þess að það var svo sóðalegt á götunum í borginni. Það er eitthvað sem við þurfum auðvitað að laga sem allra fyrst.

Það hlytist gríðarlegur skaði af því ef almennt rusl væri að finna um hálendið okkar og kringum þjóðvegina, sums staðar er mikið rusl. Ég tel að við eigum að flýta okkur í að klára mál sem þetta, sem ég mundi ætla að væri góð samstaða um, og gefa skýr skilaboð um að slíkt verði ekki liðið.

Virðulegi forseti. Ég mælist til að þetta frumvarp fari til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.