145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

náttúrustofur.

647. mál
[18:32]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég get tekið heils hugar undir það að styrkja þarf starf náttúrustofanna enn frekar. Það sem ég tel farsæla leið í því væri að hver og ein stofa fengi ákveðið kjölfestuverkefni. Segja má að verkefnið um hreindýrin sé það á Austurlandi. Maður getur séð fyrir sér vöktun í Breiðafirði eða verkefni tengd Breiðafirði sem mundi styrkja Náttúrustofu Vesturlands. Náttúrustofa Vestfjarða hefur ákveðin verkefni tengd Hornströndum en gæti auðveldlega bætt á sig fleiri eða meiri kjölfestuverkefnum. Á sama hátt mætti fara hringinn um landið. Ég teldi t.d. farsælt að Náttúrustofa Norðausturlands tengdist með einhverjum hætti betur RAMÝ, starfinu við Mývatn, þeim rannsóknum sem þar fara fram. Jafnvel teldi ég mögulegt að gerður væri samningur við náttúrustofuna um ábyrgð á því verkefni. Um það eru eflaust skiptar skoðanir, en ég held að það sé alveg skoðunarinnar virði að fara yfir það með hvaða hætti öflugra samstarfi yrði best komið á. Við höfum svo séð mjög áhugaverða vaxtarsprota spretta út frá starfi Náttúrustofu Norðausturlands í rannsóknastöðinni á Rifi sem nú virðist vera að fara á skrið, en þarf eflaust meiri stuðning við næstfyrstu skrefin, búið er að stíga fyrstu skrefin. En þar er kominn skriður á verkefni sem vafalaust hefði ekki orðið til án tilveru náttúrustofu í þeim landshluta.