145. löggjafarþing — 138. fundur,  23. ág. 2016.

náttúrustofur.

647. mál
[18:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að halda ræðu en ég hef lýst stuðningi mínum við þessa tillögu og eftir því sem ég hef hlustað betur á mál hv. þingmanns og 1. flutningsmanns sé ég að hún er náttúrlega fræðasjóður um þessi efni. Við hana er greinilegra skemmtilegra að eiga orðastað um náttúrustofur en flesta aðra. Þetta er gamalt áhugamál mitt og margra annarra. Þau verkefni sem hún nefnir, og sérstaklega tvö þeirra, eru auðvitað þess eðlis að ég get ekki annað en komið hér og lýst stuðningi við þau. Ég var náttúrlega sá umhverfisráðherra sem fékk með ærnu erfiði í gegn frumvarp um vernd Breiðafjarðar sem hefur margt gott af leiðst síðan. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að rannsóknir á lífríki og náttúrufari Breiðafjarðar sem tengist vernd þess merka náttúrusvæðis ættu mjög vel heima í stórum stíl í höndum náttúrustofu sem hugsanlega mætti líka tengja rannsóknum á því sérstaka náttúrufari sem er að finna innan þjóðgarðsins á Snæfellsnesi, sem var einmitt tillaga sem var borin fram af mér og samþykkt af Alþingi.

Af því að hv. þingmaður nefnir RAMÝ þá get ég ekki annað en tekið undir með henni þegar hún segir að hún sæi fyrir sér að tengja betur rannsóknarstofnunina við Mývatn og náttúrustofuna sem þar er í næsta nágrenni. Það mætti nefna fleiri verkefni sem væri hægt að steypa þar saman sem mundu gera það að verkum að þær ágætu rannsóknir sem hafa vitaskuld farið fram á Mývatni yrðu stórefldar. Og hvenær hefur verið þörf á því ef ekki núna? Hvað horfum við upp á núna? Við horfum upp á áður óþekktar breytingar á vistkerfi Mývatns sem eru að breyta a.m.k. lit þess og hugsanlega geta haft í för með sér mjög skaðlegar og óheillavænlegar afleiðingar í framtíðinni, ég skal ekkert um það segja. Þótt ég sé ekki í þeim hópi sem telur að meginorsök þess megi rekja til manna, ég er þeirrar skoðunar að það sé líklegra að það séu gróðurhúsaáhrifin og hlýnun jarðar sem þar valda mestu, þá er engu hægt að slá föstu um það. Þetta þarf að rannsaka.

Við getum ekki látið það gerast að náttúruperlur af þessum toga drabbist niður án þess að við skiljum orsakir þess og getum hugsanlega gripið inn í ef það er hægt. Það er ákaflega mikilvægt.

Síðan er ég þeirrar skoðunar að mjög mikilvægt sé að í tengslum við Mývatnsrannsóknina verði farið í dýpri rannsóknir á fiskstofnum þess góða vatns, sem eru feikilega merkir. Það má heita að ekki hafi verið gerðar neinar sérstakar rannsóknir á þeim síðan Pétur M. Jónasson, prófessor emeritus við Kaupmannahafnarháskóla, og Hákon Óskarsson gáfu út mjög merka bók, ekki á íslensku heldur á erlendu tungumáli, um rannsóknir þeirra á fiskstofnum í Mývatni, þeir eru alveg sérstakir. Þar höfum við náttúrlega bleikjuna frægu. Við höfum líka urriðann. Og við höfum þar alveg sérstök svæði eins og t.d. Syðri-Flóa þar sem urriðinn, eins og á stöku svæðum í Þingvallavatni, hrygnir við uppsprettur á hraunbotni. Ég hef sjálfur séð þar meira að segja á óvanalega heitum degi fjóra urriða og tvær bleikjur troðast ofan í slíka uppsprettu til þess að kæla sig. Þetta eru alveg stórmerkileg náttúrufyrirbæri sem þarna eru.

Talið hefur leitt mig á þann áfangastað sem vil helst staðnæmast við. Ég drep hér á urriðann í Laxá í Mývatnssveit. Það má ekki gleyma því að í Þingvallavatni er annar urriðastofn sem ekki síst fyrir atbeina Alþingis og stjórnvaldsins hefur braggast á síðustu 15 árum og er nú að ég tel úr hættu. En hann er, ég segi ekki órannsakaður en einu rannsóknirnar sem hafa farið fram á þeim stofni hafa verið fyrir atbeina Alþingis.

Ég er t.d. þeirrar skoðunar að í svona stórum héruðum og kjördæmum þar sem menn vildu setja niður eina náttúrustofu sé sjálfsagt að setja upp útibú. Ég er þeirrar skoðunar að það ætti að vera sökum þess hversu einstakt Þingvallavatn er, ekki bara á mælikvarða Íslands, heldur á heimsvísu. Fyndist mér það mjög verðugt verkefni fyrir anga náttúrustofu að taka að sér rannsóknir á því. Ég veit að það eru ýmsar stofnanir sem sinna því núna, líka einkaaðilar sem gera það með sérstökum glæsibrag. En hvatinn að því, sáðkornið, það var Alþingi Íslendinga sem vegna laga um það hefur forsjá og annast þinghelgina, sem síðan má segja að hafi sprottið út í þjóðgarð og síðan aftur sem var stækkaður fimmfalt hér á árum fyrri fyrir atbeina margra góðra manna. Ég tel að svona verkefni séu mikilvæg. Það er hægt að vinna þau algjörlega og stýra þeim í héraði. Þetta skapar aukinn fræðilegan grunn utan suðvesturhornsins, skapar störf og býr til það sem við þurfum að hafa á öllum stöðum, þar sem við ætlum að hafa byggð til frambúðar þurfum við líka að hafa samfélag sem við getum kallað fræðasamfélag. Það er ein af stoðunum sem þurfa að vera undir lífvænlegum byggðum ef þær eiga að vera meira en bara örfáir tugir manna. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga. Þess vegna voru náttúrustofurnar á sínum tíma ekki síður hugsaðar sem sitrandi lækir þar sem hægt væri að leiða slíkt starf saman í einn ós. Það er mikilvægt að hafa það í huga. En það verður að segjast alveg eins og er að bæði meðal almennra þingmanna, sérstaklega fyrr á tíð, og meðal hæstv. ráðherra var enginn skilningur á því viðhorfi. Þá fannst mönnum að það væri allt eins gott að hafa þessar rannsóknir allar á einni hendi og helst hjá einhverri stofnun, reyndar tveimur, á suðvesturhorninu.

Dreifing rannsóknar og dreifing þekkingar er mjög jákvæð fyrir þróun byggðar. Það er hún sem skiptir ekki síst máli þegar við erum að hugsa um framtíð landsins, vegna þess að landið verður að vera í byggð. Út frá þessu gæti ég farið að tala um búvörusamninginn en ég ætla ekki að gera það. En ég ítreka aftur þau orð sem ég hef látið falla um þessa tillögu sem er af góðum huga flutt og framsýni og ljóst að hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir veit nefi sínu lengra í þessum efnum. Það verður ekki sagt um mig.