145. löggjafarþing — 139. fundur,  24. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Nú fyrir helgina felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þann úrskurð að Landsneti bæri að stöðva framkvæmd við lagningu Þeistareykjalínu og Kröflulínu. Úrskurðarnefndin mun á meðan fjalla um kæru Landverndar vegna útgáfu sveitarfélagsins á framkvæmdaleyfi fyrir línurnar og ljóst er að ákvörðun tefur framkvæmdirnar um tæplega heilt ár.

Í nóvember í vetur sem leið samþykktum við á Alþingi ný náttúruverndarlög sem m.a. fólu í sér auknar varnir fyrir íslenska náttúru, þar á meðal aukna svokallaða sérstaka vernd fyrir tiltekin náttúrufyrirbæri. Varúðarreglan var loksins innleidd í íslenskan rétt og þar kemur m.a. fram að óheimilt sé að raska tilteknum náttúrufyrirbærum nema almannahagsmunir krefjist þess og annarra kosta hafi sannarlega verið leitað.

Fyrir liggur samkvæmt umhverfismati Skipulagsstofnunar að óafturkræfra áhrifa muni gæta á línuleiðinni og þar með sé ekki verjandi að fara í framkvæmdina án þess að það liggi fyrir hvort rökstuðningur sé nægilegur samkvæmt náttúruverndarlögum. Þannig þurfi efnislegt mat að eiga sér stað áður en lengra er haldið.

Hér er um að ræða mikilvæg þáttaskil í framkvæmd náttúruverndar á Íslandi. Fyrir liggur þar með mikilvæg viðurkenning á stöðu svæða sem njóta verndar samkvæmt íslenskum náttúruverndarlögum.

Vinstri græn hafa alltaf lagt áherslu á mikilvægi þess að náttúran njóti vafans í raun og ber sérstaklega að fagna því að sú sé orðin raunin í þessu tiltekna máli. Þannig varð breytingin ekki bara á lagabókstafnum sjálfum með öllum greiddum atkvæðum hér í þingsal í fyrra heldur liggur nú fyrir að staða íslenskrar náttúru í lögum er umtalsvert betri en hún var fyrir gildistöku nýrra laga. Það eru tíðindi.


Efnisorð er vísa í ræðuna