145. löggjafarþing — 139. fundur,  24. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Nú á að færa lögregluskólann upp á háskólastig. Mér þótti það sæta tíðindum þegar hæstv. menntamálaráðherrann sagði að hann ætlaði að leita til háskólanna í landinu og Ríkiskaup efndu til útboðs um hvaða háskóli fengi að annast þetta nám. Nú er komið í ljós úr þessu útboði, það var sem sagt útboð, að Háskóli Íslands var langstigahæstur og metinn hæfastur. Hann fékk 9,5 af 10 stigum. En hæstv. ráðherra hefur ákveðið að námið eigi að fara fram á Akureyri. Á að kenna þetta í fjarkennslu? Hvar er mest þörf á lögreglumönnum? Það er á suðvesturhorninu. Hvar er flesta fólkið sem hugsanlega vildi fara í þetta nám? Það er hérna á suðvesturhorninu. En þá vega byggðasjónarmið svo mikið í þessu mati að þau taka fram yfir allt annað. Mér finnst þetta mjög undarlegt.

Ég velti fyrir mér hvort þetta sé annað fiskistofuævintýri þannig að það verði einn nemandi í lögregluskólanum á Akureyri. Er ekki einn starfsmaður Fiskistofu á Akureyri? Ég veit að það gæti virst að ég væri fædd í gær að tala um þetta hér því að það má náttúrlega aldrei tala um svona hluti á þessu þingi. En ég er ekki fædd í gær. Mér finnst þetta hneyksli. Og undarlegt að minnsta kosti.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna