145. löggjafarþing — 139. fundur,  24. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þórunn Ólafsdóttir, sem mörgum er af góðu orðin kunn fyrir starf sitt við að aðstoða flóttafólk á Grikklandi, var í dægurmálaútvarpi Rásar 2 síðdegis í gær. Þar talaði hún um reynslu sína og sagði frá nöturlegum aðstæðum fólksins; þ.e. flóttamanna sem sitja fastir í Grikklandi og eru að stórum hluta börn. Það var eitt sem hún sagði í þessu viðtali sem hefur setið alveg sérstaklega í mér en það er það hvað mál flóttamanna og hælisleitenda hafa verið umkomulaus hér á landi. Ég held nefnilega að þetta sé alveg hárrétt hjá Þórunni. Þessi mál hafa verið dálítið umkomulaus. Stjórnsýsla útlendingamála er einfaldlega í molum hérna.

Hæstv. ráðherra Ólöf Nordal hefur sagt að nálgast þurfi málefni flóttafólks með mannúð að leiðarljósi. Ég er sammála henni í því. En ég er hrædd um að upplifun ansi margra sé að það sé einmitt ekki raunin. Stofnunina sem heyrir undir ráðherrann, þ.e. Útlendingastofnun, skortir þvert á móti alla mannúð í úrskurðum sínum og vísar öllum sem hún mögulega getur, eða ég vil reyndar segja ómögulega, í burtu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Við verðum einfaldlega að taka okkur á í þessum málum. Ég tel að kjörinna fulltrúa bíði ærið verkefni í þessu máli. Ég vona svo sannarlega að við sem samfélag berum gæfu til þess að fá hér ráðherra eftir kosningar sem þorir og getur farið fyrir undirstofnun (Forseti hringir.) sinni þannig að mannúð verði ekki bara orðin tóm heldur sé það sem haft er að leiðarljósi í störfum þegar tekið er á málefnum flóttamanna.


Efnisorð er vísa í ræðuna