145. löggjafarþing — 139. fundur,  24. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er algerlega absúrd, að vera á þingfundi þar sem eina dagskrármálið er störf þingsins. Hér áttu þó að vera atkvæðagreiðslur, og er það nú óvenjurýrt í roðinu, en þeim þurfti að fresta vegna slakrar mætingar. (Gripið fram í.) Svo á morgun eru óundirbúnar fyrirspurnir vissulega, kannski atkvæðagreiðslur ef einhverjir mæta til þess að taka þátt í þeim og ein sérstök umræða sem formaður Samfylkingarinnar hefur óskað eftir. Okkur var sagt að við yrðum að vera hér, það væri svo áríðandi að halda áfram vegna allra þeirra stóru mála sem biðu. Það fer lítið fyrir þeim. Og óttast var, hvað? Að stjórnarandstaðan mundi þvælast fyrir? Ég segi bara: Ég sé ekki ástæðu til að vera hér.

Beðið er eftir frumvörpum um almannatryggingar og fæðingarorlof. Þetta eru mál sem varða miklu fyrir fjöldann og skipta máli fyrir fjölda fólks í samfélaginu. Hæstv. fjármálaráðherra hefur gefið í skyn að það sé allólíklegt vegna atkvæðagreiðslu í ríkisfjármálaáætlun að málefni félags- og húsnæðismálaráðherra fái hér greiða meðferð. Þau eru ekki einu sinni komin inn í ríkisstjórn. Ég sé ekki fyrir mér hvernig við eigum að geta lokið þeim á þessu þingi. Verið er að hafa alþingismenn, en það sem verra er, kjósendur að athlægi. Og talað er eins og hér sitji ríkisstjórn með erindi. Hún hefur ekkert erindi annað en það að afhenda eignir einkavinum. Gefum þeim ekki lengri tíma til þess og slítum þessu þingi.