145. löggjafarþing — 139. fundur,  24. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að spyrja virðulegan forseta um störf þingsins og þá kannski fyrst og fremst hvort einhver dæmi séu þess úr þingsögunni að ekkert annað hafi verið á dagskrá þingfundar en störf þingsins. Þann tíma sem ég hef verið hér rekur mig ekki minni til þess en ég vil þó ekki fullyrða um það og ekki aðra þingmenn hér sem setið hafa lengi sem ég hef spurt. En ef forseti þingsins man til þess að það hafi einhvern tímann áður verið jafn rýr dagskrár hér í þinginu eins og er í dag, aðeins störf þingsins á dagskrá og engar atkvæðagreiðslur og engin mál, þá er auðvitað besta mál að hann leiðrétti það. Það er að minnsta kosti ákaflega fátítt.

Nú ætla ég auðvitað ekki að fara að kvarta yfir því að ríkisstjórn sem ég er fullkomlega ósammála í mörgum og veigamiklum málum sé ekki að flytja hér inn mál. Ég held að út af fyrir sig megi um þessa ríkisstjórn segja að þeim mun færri mál sem hún flytur inn hér á sínum síðustu dögum þeim mun betra. En þetta undrar mann hins vegar eftir yfirlýsingar um að stjórnarflokkarnir mundu eiga í miklum erfiðleikum með að koma málum fram vegna málþófs stjórnarandstöðunnar.

Virðulegur forseti. Jafnvel þó að ég feginn vildi stunda málþóf gagnvart einhverjum málum stjórnarinnar þá er það engin lifandi leið þegar ekkert þingmál er á dagskrá fundarins og þegar dag eftir dag ekkert er hér (Gripið fram í.) til umfjöllunar. Skorti ríkisstjórnina hugmyndir að góðum málum til að lögfesta hér á lokadögum þingsins þá held ég að eitt af því sem vert væri að gera væri að banna með lögum þetta málþóf sem þeir skelfast svo mjög. Það hefur auðvitað spillt fyrir störfum þingsins um langt árabil og löngu tímabært að afnema það hér úr þinghaldinu. Nú þegar þverpólitísk samstaða allra flokka hefur tekist um það að almenningur eigi að fá réttinn til þess að (Forseti hringir.) kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um lög frá Alþingi þá er forsenda til þess að lögfesta þann neyðarrétt almennings í landinu (Forseti hringir.) og banna um leið með lögum það málþóf sem stjórnarflokkarnir skelfast svo mjög.