145. löggjafarþing — 139. fundur,  24. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Mér er illa við fúsk og finnst ekki til of mikils mælst að keppa að því að stofnanir þjóðfélagsins starfi út frá heiðarleika, kærleika og með virðingu fyrir almenningi. Því miður fréttast sífellt dæmi af hinu gagnstæða. Á dögunum sneri ráðuneyti við ákvörðun þar sem íslenskum þegn var bannað að giftast ástinni sinni þar sem stofnun kaus að taka ekki mark á opinberum skjölum frá fjarlægu landi. Öryrkjar upplifa reglulega þá skömm að þurfa að sanna að varanleg fötlun þeirra hafi ekki gufað upp fyrir kraftaverk. Árlega lenda þúsundir bótaþega í skuld við kerfið þar sem opinberar reiknivélar reyndust ekki starfi sínu vaxnar. Skuld sem er dregin frá skammarlegum bótum sem eru langt undir framfærsluviðmiðum ráðuneyta. Yfirvöld reynast hafa hlerað síma þingmanna og við höldum úti sérstakri stofnun til að takmarka hvað íslenskir ríkisborgarar mega heita. Það er eitthvað öfugsnúið við þetta allt saman, herra forseti.

Eftir höfðinu dansa limirnir. Í umræðum í gær um tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið hélt þingmaður Framsóknarflokksins því fram að flokkur sinn hefði aldrei lofað slíkri atkvæðagreiðslu fyrir kosningarnar 2013 þrátt fyrir ótal varðveitt dæmi um nákvæmlega þetta loforð frá forustu flokksins á opinberum vettvangi og reyndar frá þingmanninum sjálfum. Hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, líkti ríkisstjórninni við leikskóla en dró svo í land eftir hávær mótmæli og viðurkenndi að það væri dónaskapur að líkja leikskólum landsins við ríkisstjórnina. Formaður Framsóknarflokksins lýsti því á dögunum yfir að stjórnarandstaðan þyrfti að lofa að þvælast ekki fyrir en þessi sami þingmaður hefur varla sést hér í húsinu og eins og dagskrá dagsins ber með sér sést ekkert í þau mikilvægu mál sem standa í vegi fyrir því að hægt sé að ganga til kosninga. Búvörusamningur sem verið er að troða í gegnum þingið er gerður án nokkurrar aðkomu neytenda eða tillits til samkeppnissjónarmiða eða umhverfisþátta. Hv. formaður atvinnuveganefndar kallar það einhliða sátt að samningarnir verði ekki bundnir til tíu ára heldur bara til þriggja.

Er nema von að virðing fyrir (Forseti hringir.) Alþingi og lykilstofnunum samfélagsins sé við frostmark? Ábyrgð okkar er ekkert grín. Alþingi er kosið af íslenskum almenningi. Hér situr þingbundin ríkisstjórn í umboði forseta Íslands. Tilgangurinn getur bara verið einn: Þjónusta við almenning. Mér finnst ekki hrokafullt að ætlast til þess að við gerum betur.


Tengd mál