145. löggjafarþing — 139. fundur,  24. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp sem stjórnarþingmaður og ætla aðeins að bera í bætifláka fyrir stjórnarflokkana vegna þess einfaldlega að í nefndum sitja mörg stór og mikilvæg mál sem bæði ráðherrar og stjórnarmeirihlutinn vilja gjarnan að verði kláruð. Á þeim dögum frá því að þing hófst núna í ágúst hefur verið mælt fyrir þeim málum sem kynnt var í vor að mælt yrði fyrir, það væri mál sem snerti afnám hafta, mál sem snertu séreignarstefnuna í beinum tengslum við frumvörp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sem þá voru flutt, mál sem voru í það minnsta í samkomulagi á milli stjórnarflokkanna. Það er líka frumvarp í efnahags- og viðskiptanefnd um vexti og verðtryggingu. Vissulega koma þessi mál fram nú á haustdögum á þessu þingi, þurfa að fara til umsagnar og vera síðan þar í vinnslu. Til þess að allrar sanngirni sé gætt þá eru þetta þau stóru mál sem m.a. var tilkynnt í vor þegar gengið var frá málum á vorþingi að kæmu hingað í haust. En við þekkjum það verklag sem hér er að mælt er fyrir máli, þau eru send til umsagnar og síðan koma þau inn til vinnslu. Önnur mál eru í vinnslu í nefndum. Kannski getum við sagt að þau komi seint út úr nefndunum til þess að koma hingað inn. Ég tek undir með þeim sem hafa talað að það er sérkennileg staða á miðvikudegi 24. ágúst að í þinginu skuli eingöngu vera störf þingsins til umræðu. Það er mjög sérkennilegt og hefði farið betur ef hlutirnir væru öðruvísi. En ef allrar sanngirni er gætt þá vita þingmenn, jafnt stjórnarliðar sem stjórnarandstaða, að það eru mál inni í nefndum sem eru mikilvæg fyrir alla (Forseti hringir.) þjóðina óháð pólitísku flokkunum.