145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

dagskrá fundarins og fundarsókn.

[10:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er fljótgert að taka einfaldlega undir með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur. Ég held að gærdagurinn hafi sannarlega ekki verið til þess að auka hróður þingsins, ekki málafátækt heldur einfaldlega ekkert mál á dagskránni og myndir af tómum þingsal og auðum ráðherrabekkjum. Verður að gera þá kröfu til stjórnarmeirihluta að hann boði ekki til þings að sumri nema hann hafi hugsað sér að mæta sjálfur til þess þings. Það er einfaldlega þannig núna annan daginn í röð að stjórnarmeirihlutinn er svo þunnskipaður á því þingi sem hann sjálfur hefur boðað til að ekki er hægt að hafa hér atkvæðagreiðslur eða ljúka afgreiðslu mála. Þetta, virðulegur forseti, er engum til vegsauka hvar í flokki sem hann stendur og þinginu og stjórnmálunum sannarlega ekki til framdráttar eins og þetta hefur verið hér undanfarna daga, því miður, virðulegur forseti, og ég hvet forseta (Forseti hringir.) til að taka á þessu máli.