145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

einkarekstur í almannaþjónustu.

[10:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er vel þekkt síðustu ár og áratugi að hið opinbera feli einkaaðilum að sinna einstökum verkefnum í almannaþjónustu en þó hefur verið nokkuð góð sátt um að grunnstoðir samfélagsins eigi að mestu leyti að vera reknar af hinu opinbera, að vera reknar af samfélaginu á samfélagslegan hátt.

Mig langar að inna hæstv. forsætisráðherra og varaformann Framsóknarflokksins eftir stefnu hans flokks í þessum efnum í ljósi þess að við höfum fengið þau tíðindi, einkum þó frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins upp á síðkastið, að til standi að auka mjög vægi einkarekstrar í almannaþjónustu.

Við getum nefnt einkarekstur þriggja heilsugæslustöðva sem þegar hefur komið til framkvæmda. Við getum nefnt óvissu um hvort nýtt sjúkrahótel verði boðið út eða verði hluti af Landspítalanum. Við getum nefnt orð hæstv. innanríkisráðherra um að auka þátt einkaaðila í rekstri samgöngukerfisins almennt. Og við getum nefnt nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar þar sem það er orðað, með loðnum hætti þó, en vitnað til þess, að einkaaðilar séu í auknum mæli að koma að rekstri flugvalla víða í Evrópu og að huga beri að, eins og það er orðað, nýjum fjármögnunarleiðum við fyrirhugaða uppbyggingu flugvallarmannvirkja í Keflavík. Ef við túlkum þetta yfir á mannamál er þarna að sjálfsögðu verið að vísa til einkarekstrar á millilandaflugvellinum í Keflavík, eða að minnsta kosti hluta hans.

Ekki er minnst einu orði á aukið vægi einkarekstrar í stjórnarsáttmála eða samstefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar, ekki einu orði. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem er varaformaður Framsóknarflokksins, hvort þetta sé sameiginleg stefna ríkisstjórnarflokkanna — þar sem ekki er hægt að skilja það öðruvísi en að aukin áhersla sé á einkarekstur og ekki bara einstök tilvik eins og við þekkjum frá síðustu árum og áratugum heldur beinlínis stefnubreyting — hvort Framsóknarflokkurinn styðji það að auka með þessum hætti vægi einkarekstrar í grunnheilbrigðisþjónustunni, auka vægi einkarekstrar í samgöngukerfi allra landsmanna.