145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

einkarekstur í almannaþjónustu.

[10:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mikið rétt, og það er rétt að það hefur verið tilhneiging annars staðar á Norðurlöndum þar sem ekki hafa verið vinstri stjórnir undanfarin ár heldur einmitt hægri stjórnir að færa almannarekstur í hendur einkaaðila. Ég sagði það í upphafi að vissulega hefðum við gert þetta í einstökum tilvikum og oft náðst um það ágæt sátt. Hæstv. ráðherra nefnir Hvalfjarðargöngin. Það sem ég er að spyrja um er grundvallarsýn Framsóknarflokksins í þessu máli, hvað sá flokkur telur um grunnþjónustu á borð við heilsugæsluna, hver eigi að vera grunnstefnan í þeim málum, ekki einhver sérstök undantekningartilvik, hver eigi að vera grunnstefnan í samgöngumálum landsmanna, ekki afmarkaðar framkvæmdir þar sem aðrar leiðir eru í boði svo dæmi sé tekið. Þetta eru grundvallarmálefni sem eru ekki reifuð í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Við sem fylgjumst með málum fáum á tilfinninguna að þarna hafi stefna Sjálfstæðisflokksins orðið ofan á í ríkisstjórnarsamstarfinu (Forseti hringir.) og þetta þarf auðvitað að ræða opinskátt fyrir komandi kosningar, hvar flokkarnir standa. Þetta er eitt af hinum hápólitísku málum (Forseti hringir.) í stjórnmálaumræðunni í dag og snýst um það hvernig við lítum á almannaþjónustu og hver við teljum að eigi að ráða þeirri þjónustu og veita þá þjónustu.