145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

einkarekstur í almannaþjónustu.

[10:44]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagnaði þessari umræðu, og hún þarf að vera opinská, vegna þess að menn verða líka að viðurkenna hvaðan þeir sjálfir eru að koma og fyrir hvað þeir hafa staðið.

Grundvallarsýn framsóknarmanna er sú að við viljum markaðskerfi á Íslandi, blandað hagkerfi þar sem einkarekstur einstaklinga blómstrar en líka í samstarfi við aðra, í samvinnurekstri, í félagsrekstri. Við viljum tryggja félagshyggjusjónarmiðin mjög í okkar stefnu, tryggja að allir geti notið þeirra tækifæra sem landið býður upp á.

Við erum sannarlega miðjuflokkur og það er gott að geta tekið þessa umræðu um grundvallarsýnina. En síðan þurfum við að taka ákvarðanir þegar við stöndum frammi fyrir verkefnunum. Ég get ekki tekið undir að þetta gerist ekki þegar vinstri stjórnir eru við völd annars staðar á Norðurlöndum, því að það hafa þær svo sannarlega verið á liðnum áratugum. Þá hafa menn haldið áfram á þessari braut. Við höfum horft mjög til Norðurlanda til fyrirmyndar (Forseti hringir.) í rekstri og ég treysti því alveg.

Mér finnst skynsamlegt að við tökum þessa umræðu en grundvallarsýn framsóknarmanna er alveg skýr og ég gæti glaður komið hér upp og lesið upp úr henni daginn út og daginn inn. Ég held að það mundi bara gleðja þingmenn og vera gagnlegt fyrir þá að hlusta á. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)