145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

starfsáætlun sumarþings.

[10:48]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé alltaf hollt okkur sjálfum sem hér sitjum að ræða um okkar eigin störf og virðingu þingsins og annað í þeim dúr. Nú hef ég reynslu af tveimur kjörtímabilum og varðandi starfsáætlun held ég, án þess að ég hafi skoðað það sérstaklega, þetta er svona tilfinning mín, að starfsáætlun síðasta kjörtímabils hafi bara aldrei verið framfylgt nokkurn tímann, en hún hafi bara nokkuð staðist á þessu kjörtímabili. Látum það vera. Skoðum það.

Auðvitað eru breyttir tímar frá því sem við settum upp hér í vor með því að stefnt er að kosningum í lok október. Það hefur komið mér aðeins á óvart að heyra hérna t.d. í fundarstjórn, heyrði það í þinginu í gær, aðeins þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þingmanni um að hér sé þriggja vikna starfsáætlun og svo muni þinginu ljúka vegna þess að á fundi með formönnum flokkanna sem ég og fjármálaráðherra áttum í aðdraganda þingsins kynntum við þær hugmyndir um að fresta samkomudegi þingsins, halda áfram þingstörfum fram í september, hugsanlega út september og lengur ef þurfa þykir með þeirri niðurstöðu að kjósa í lok október. Þetta eru ekki nein ný tíðindi. Við töluðum um þetta líka í vor á einum tveimur fundum og þeim fundi sem haldinn var hérna í aðdraganda þingsins er það hæfist.

Síðan er það staðreynd að á fyrstu dögum þingsins lagði ríkisstjórnin fram tvö stór mál, annars vegar er varðar séreignarsparnað ungs fólks og verðtrygginguna og á öðrum degi þingsins kom inn frumvarp um afnám hafta. Í morgun var lagt fram af forsætisráðherra frumvarp um stjórnarskipunarlög. Við höfum rætt og ég veit að félags- og húsnæðismálaráðherra hefur kynnt stuttlega fyrir stjórnarandstöðunni hugmyndir um almannatryggingar sem hér hafa verið unnar í samstarfi flokkanna, ekki bara á þessu kjörtímabili heldur í langan tíma í samstarfi við marga aðila og margir hafa lagt þar hönd á plóg. Ég held að það sé ágætur tími til að fara vel yfir þessi mál (Forseti hringir.) og reyna að ljúka þeim öllum áður en við göngum til kosninga.