145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

starfsáætlun sumarþings.

[10:52]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég veit að í þessum sal höfum við auðvitað mismunandi sjónarmið um það hvað við teljum mikilvægt og eins hvað við leggjum áherslu á þegar við leggjum til breytingar til að bæta samfélagið. Það er ekkert að því. Ég er sammála hv. þingmanni að það er ekki góður bragur á því að vera að bera þokkalega hluti saman við eitthvað sem hefur einhvern tímann verið verra. Ég mun hins vegar minnast þess að sitja hér á þingi 2009 allt sumarið og það bráðaverkefni sem þá lá á, samkvæmt sjónarmiðum þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat, var að sækja um að aðild að Evrópusambandinu, sem í ljósi alls sem síðar hefur gerst var augljóslega ekki mjög mikið bráðaatriði og kannski klúður frá A til Ö. Það er svo önnur saga og menn geta líka haft mismunandi sýn á hvort það hafi verið skynsamlegt eður ei.

Ég vil ítreka að í þinginu voru um 26 mál sem voru á leiðinni út úr nefndum í aðdraganda þingsins. Ég held við séum búin að afgreiða hér fimm, sex mál og tíu ef nægilegur fjöldi þingmanna (Forseti hringir.) hefði verið í þingsal í gær. (Forseti hringir.) Ég mundi halda því fram að þingstörfin gengju ágætlega (Forseti hringir.) hvað það varðar og vænti þess að þau 16 mál sem voru í nefndum þingsins (Forseti hringir.) fari fljótlega að berast inn í þingið og það verði nóg að gera í næstu viku. (ÖS: Þú ert búinn að svæfa þingið.)