145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

hækkun ellilífeyris.

[10:56]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er gott að fá hér í óundirbúnum fyrirspurnum stuðning við mál sem stjórnarandstaðan, eða hv. þingmaður, hefur ekki séð eða aðeins lítillega. Það hjálpar okkur í ríkisstjórninni við að klára mál.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhyggjur af ríkisstjórnarsamstarfinu. (Gripið fram í.) Það hefur svo sem sést áður að menn nota slík sjónarmið til að koma málum sínum á framfæri. Þó að ég hafi haft þau orð uppi áðan í samræðu við hv. þm. Óttar Proppé að kannski væri ekki gott að vera alltaf að bera saman hluti frá einu kjörtímabili til annars þá verður það auðvitað að gerast í þessu sambandi þar sem hv. þm. Helgi Hjörvar var einn af lykilmönnum í því samstarfi. Sú ríkisstjórn sem þá sat var meira og minna í minni hluta allan þann tíma að því er fram hefur komið í söguskýringum einstakra manna, jafnvel ráðherra í þeirra ríkisstjórn. Það verður að segjast eins og er að menn geta gripið þar til alls konar samlíkinga þar sem menn greiddu atkvæði, jafnvel ráðherrar, gegn fjárlögum og annað í þeim dúr. Samt sat sú ríkisstjórn í fjögur ár, afkastaði kannski ekki miklu.(Gripið fram í.)

Við erum að vinna að ákveðnum málum, hv. þm. Helgi Hjörvar. Við ætlum að leggja áherslu á að koma þeim málum inn til þingsins og gefa þinginu tækifæri til að takast á við þau verkefni. Það er gleðilegt að heyra að mikill vilji og stuðningur sé við þau áform sem ríkisstjórnin hefur haft uppi. Þegar þau koma fram getur þingið farið að takast á við þau og ég vænti þess að samstarfið verið gott við alla þingmenn, líka hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, um að klára þau mál.