145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

afgreiðsla mála á sumarþingi.

[11:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mér finnst svolítið skringilegt að ekki sé hægt að fá nákvæma áætlun um það hvenær þessi stóru mál eiga að koma inn í þingið. Það hlýtur að liggja fyrir einhver áætlun um það hvenær ríkisstjórnin hyggst afgreiða almannatryggingamálið, fæðingarorlofsmálið og breytingar á hlutverki Íbúðalánasjóðs. Þetta eru engin smámál. Síðan erum við með LÍN-málið inni á þingi sem augljóslega þarfnast mikilla breytinga ef það á að geta komið út í sátt meðal stjórnarflokkanna. Það sem ég upplifi hér er svo mikið ósætti á milli ríkisstjórnarflokkanna að ekki takist hreinlega að ná málum héðan út úr þinginu. Svo á að reyna að varpa ábyrgðinni yfir á minni hlutann sem hefur verið í mjög ábyrgri stjórnarandstöðu. Ég óska eftir því að fá nákvæma tímaáætlun frá hæstv. forsætisráðherra. Ef hann getur ekki verið með tímaáætlun (Forseti hringir.) um hvernig á að haga málum þá er hæstv. forsætisráðherra augljóslega ekki fær um að stjórna landinu.