145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

stofnframlög í almenna íbúðakerfinu.

[11:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til þess að ræða við hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um hið nýja almenna íbúðakerfi. Það var þannig í sumarbyrjun að við á Alþingi gátum sameinast um að lögfesta nýtt leiguíbúðakerfi á Íslandi sem mörg okkar bera miklar væntingar til. Kerfið mun fyrst og fremst gagnast ungu fólki og tekjulægra fólki sem fær þá leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði, en eins og allir vita er gríðarlegur skortur á húsnæði sem fólk hefur efni á að búa í. Fjöldi fólks býr annaðhvort við allt of háan húsnæðiskostnað eða inni á foreldrum sínum.

Ég kem hér upp til þess að spyrja ráðherra hvernig gangi að innleiða þetta nýja kerfi. Það mun auðvitað taka tíma, en við verðum að nýta hvern mánuð. Mig langar að spyrja hversu margir, t.d. húsnæðissjálfseignarstofnanir, sveitarfélög, lögaðilar og félagasamtök, hafa leitað til ráðherra til að fá samþykki fyrir því að þeir falli inn í nýja kerfið. Mig langar að vita hversu margir hafa fengið samþykki fyrir stofnframlagi frá sveitarfélagi sínu, en sveitarfélögin eiga að veita 12% stofnframlög á móti 18% stofnframlagi frá ríki, og hversu margir hafa sótt um stofnframlög til Íbúðalánasjóðs. Mér finnst mjög mikilvægt að fá þessar upplýsingar fram því að það verður að vinna hratt og örugglega í þessu máli. Ég vona að hæstv. ráðherra komi hér upp og segi mér að það sé allt á fullu gasi í nýja kerfinu.