145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

stofnframlög í almenna íbúðakerfinu.

[11:09]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég vil líka fá að nota tækifærið og segja að mér fannst mjög ánægjulegt að sjá það í framboðstilkynningu hv. þingmanns að hún tiltók sérstaklega að hún sæi fyrir sér að auka framlögin til uppbyggingar á almennum íbúðum á næstu árum. Við fórum strax eftir að Alþingi samþykkti lögin að skrifa þær reglugerðir sem þurfti, annars vegar reglugerðir fyrir Íbúðalánasjóð varðandi úthlutun á stofnframlögum ríkisins og hins vegar reglugerðir sveitarfélaganna um úthlutanir á stofnframlögum sveitarfélaganna. Það var gert í samráði við sveitarfélögin að sjálfsögðu þannig að þær reglugerðir liggja nú fyrir.

Íbúðalánasjóður hefur síðan verið að undirbúa sig á fullu og sendi út bréf á öll sveitarfélög þar sem hann upplýsti um lögin og að sjóðurinn hefði í hyggju að auglýsa stofnframlögin síðsumars og á haustmánuðum. Hann er núna búinn að gera það og gert er ráð fyrir því að umsóknarfrestur um fyrstu stofnframlögin hjá ríkinu renni út 30. september, en jafnframt er gert ráð fyrir að auglýsa aftur á þessu ári, það verður sem sagt gefið tækifæri hvað þetta varðar með því að auglýsa tvisvar.

Ég hef jafnframt verið svo heppin að fá að sitja kynningu á fundi með sveitarfélögum fyrir vestan þar sem ASÍ fór í gegnum sín áform og upplýsti þar m.a. að það væri komið mjög langt í að klára samþykktir fyrstu húsnæðissjálfseignarstofnunarinnar sem það mun leggja fyrir ráðherra til samþykktar. ASÍ hefur jafnframt ráðið verkefnisstjóra og kynnti líka áform sín um uppbyggingu á íbúðum í almenna íbúðakerfinu í samræmi við samkomulag ríkis og aðila vinnumarkaðarins þar sem það sér fyrir sér að byrja á því að byggja 1.150 íbúðir. Þeir eru komnir með úthlutun fyrir þessum lóðum (Forseti hringir.) eða samkomulag við sveitarfélögin varðandi lóðir og gera ráð fyrir að fjárfesta fyrir allt að 27 milljarða á sex ára tímabili, eða eins og þeir hafa orðað þetta, (Forseti hringir.) afhenda eina blokk á mánuði frá og með 2018.