145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

stofnframlög í almenna íbúðakerfinu.

[11:11]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og það er ánægjulegt að heyra að það eru áform um uppbyggingu 1.150 íbúða af hálfu sjálfseignarstofnunar á vegum Alþýðusambands Íslands. En áform voru uppi um að reisa 2.300 íbúðir á fimm árum. Þá vil ég spyrja ráðherra: Hefur hún ekki áhyggjur af því sem fram kom við vinnslu frumvarpanna að forsendurnar voru ekki alveg réttar og þegar við vorum búin að setja inn nýjar forsendur þá urðu þetta augljóslega ekki 2.300 íbúðir heldur nær 1.500 íbúðum? Þegar verið var að ganga til kjarasamninga þá var það skýr krafa ASÍ í upphafi að þetta yrðu um 1.000 íbúðir á ári í fimm ár því að það er hin raunverulega þörf, þó að ASÍ hafi verið þrýst niður í færri íbúðir. Er ekki hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sammála mér um að við þurfum 5.000 íbúðir á næstu árum ef (Forseti hringir.) við eigum að fullnægja þörfinni fyrir íbúðarhúsnæði?