145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

stofnframlög í almenna íbúðakerfinu.

[11:13]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við sjáum mjög mörg teikn á lofti um að það sé verulegur skortur á húsnæði mjög víða um allt land. Mér hefur verið boðið að fara á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna þar sem verður sérstaklega fjallað um almenna íbúðakerfið. Ég veit að sveitarfélög hringinn í kringum landið hafa verið að funda um þetta og farið yfir þau bréf sem bárust frá Íbúðalánasjóði. Starfsmenn Íbúðalánasjóðs hafa verið að fylgja þeim síðan eftir með fundum. Það hefur líka verið þannig að einstök sveitarfélög hafa auglýst eftir samstarfsaðilum varðandi stofnun húsnæðissjálfseignarstofnana, auk þess sem margir hafa líka horft til öflugra frjálsra félagasamtaka, eins og t.d. Landssamtakanna Þroskahjálpar, sem hugsanlegra samstarfsaðila.

Eitt af því sem ég tel líka mikilvægt að fara yfir núna snýr að húsnæðisvanda námsmanna en þar sjáum við mjög langa biðlista og fara yfir það hvaða svigrúm við höfum hugsanlega, jafnvel núna á þessu ári, til þess að bregðast við því á grundvelli þeirra fjárveitinga sem ráðstafað var til húsnæðiskerfisins.