145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

starfsáætlun sumarþings.

[11:16]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mér er verulega misboðið eftir að hafa hlustað á hæstv. forsætisráðherra og það virðingarleysi sem hann sýnir forseta Alþingis og þinginu öllu. Mér finnst mjög mikilvægt að við látum málin þróast þannig að Alþingi líti út eins og það sé gersamlega viljalaust verkfæri framkvæmdarvaldsins. Það er ekki sú ásýnd sem við viljum hafa af þinginu, hjarta lýðræðisins.

Síðan finnst mér líka ákaflega mikilvægt að það komi fram og við fáum svör við á fundinum á eftir með forseta þingsins, þegar þingflokksformenn fá loksins tækifæri til þess að ræða um hvað er í gangi á þinginu. Það er mjög furðulegt að koma hér inn dag eftir dag þar sem stjórnarliðar virðast ekki vera í vinnunni sinni. Mér finnst það alvarlegt. Við erum mætt til þess að greiða fyrir störfum en það eru engin mál á dagskrá sem hægt er að afgreiða. Þetta er auðvitað ekki í lagi og ekki til þess að hjálpa til með framhaldið, svo mikið er víst, forseti.