145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

starfsáætlun sumarþings.

[11:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram í tilefni af þeim orðum sem hafa fallið að ég og hæstv. forsætisráðherra höfum verið afskaplega skýrir með það á fundum með öllum flokkum að það stendur til að breyta samkomudegi nýs þings. Við höfum jafnframt verið skýrir með það að að öllu óbreyttu muni þurfa að fjölga þingdögum. Þetta tel ég að ætti ekki að koma neinum í opna skjöldu. Þetta er ekki vettvangurinn til þess að ræða hvernig starfsáætlun verði mögulega breytt. Það er gert á öðrum fundum. Mér finnst þetta tilefnislaust upphlaup hér með öllu, að nota umræður um fundarstjórn forseta í þingsal til þess að láta þau skilaboð ganga frá þinginu að það séu engin mál til að vinna með. Staðreyndin er sú að það eru mörg risavaxin mál sem er verið að vinna með. Já, sum þeirra eru ekki tilbúin til þess að koma til umræðu. Það er verið að vinna við þau í nefndum. (Forseti hringir.) Gefum þá nefndunum frið til þess að vinna þau og höfum þingfundi þegar mál þurfa að fá umræðu og atkvæðagreiðslu. Það hefur gengið ágætlega undir forustu forsetans.