145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

starfsáætlun sumarþings.

[11:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði líka að nefna það að allsherjar- og menntamálanefnd fundar á eftir. Mér þykir umræðan sem fór hérna aðeins fram hjá hv. þm. Björt Ólafsdóttur endurspegla ákveðinn misskilning sem við segjum okkur sjálfum að sé sannur skilningur, sem er sá að það sé þingið sem ráði. Það er nefnilega ríkisstjórnin sem ræður. Það er reyndin á Íslandi. Mér finnst alveg þess virði að íhuga hvers vegna það er. Að mínu mati er stór ástæða fyrir því sú að við höfum þessa meirihlutahefð. Ég ætlaði nú reyndar ekki að halda ræðu um það.

Það sem er mikilvægt í kringum það sem um ræðir hér er að fólk þarf að vita framtíðina, fólk þarf að geta skipulagt sig, ekkert bara fyrir kosningar, en jafnvel líka fyrir kosningar. Þá er mikilvægt að það sé hreinu hvernig þetta eigi að vera þannig að fólk geti skipulagt sig. Það er mikilvægt, virðulegi forseti, fyrir kjósendur í landinu, fyrir almenning í landinu líka. Fólk finnur alveg fyrir því að það vantar fólk hérna á þingi. Það finnur fyrir því í þingsal, það finnur fyrir því á nefndafundum, það finnur fyrir því í sambandi við tímatöflu yfir nefndafundi eins og virðulegur forseti hefur réttilega bent á. Þannig að við skulum ekki láta eins og þetta sé ekki vandamál. Þetta er það. (BirgJ: Heyr, heyr.)