145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

starfsáætlun sumarþings.

[11:36]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ákvað að kveðja mér hljóðs þó að ég hafi ekki hugsað mér það í upphafi. Mér þykir þetta tal um að stór hluti starfans fari fram í nefndum hálfhjákátlegt í ljósi þess hvernig staðan er núna. Alla þessa viku hafa tveir fulltrúar meiri hlutans mætt á fundi í fjárlaganefnd. Formaðurinn tilkynnti á samfélagsmiðli áðan, sá ég, að hún væri að ljúka sumarfríi í Frakklandi þannig að hún hefur ekki séð ástæðu til að funda hér með ráðherra. Aðrir stjórnarþingmenn ekki heldur og þeir boða ekki varamenn. Það er afar bagalegt að ekki séu kallaðir inn varamenn. Til þess eru þeir, varamenn í þingnefndum.

Í allsherjar- og menntamálanefnd hefur staðan hins vegar verið önnur. Þar hefur formaðurinn sem var að fara í leyfi séð til þess að nefndin er ágætlega mönnuð og meiri hlutinn hefur séð um þá mönnun, þ.e. að þau eru í meiri hluta fundarfólks. Það hefur ekki átt við í fjárlaganefnd. Á meðan svo er (Forseti hringir.) er ekki hægt að halda því fram að hægt sé að afgreiða mál fyrir utan það sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson fór yfir, mál eru til umsagnar og það er verið að funda, m.a. í dag reyndar, um 180 síðna umsögn stúdentaráðs sem við fengum í gær.