145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

uppboðsleið í stað veiðigjalda.

[11:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Mikil umræða hefur átt sér stað síðustu vikur um stjórn fiskveiða í kjölfar útboðs Færeyinga á aflaheimildum og sölu kvótans frá Þorlákshöfn. Umræðan er einkum um það réttlætismál að fólkið í landinu fái að njóta arðsins sem eign þess skapar og fái fullt verð fyrir veiðileyfið.

Við Íslendingar erum rík af auðlindum og teljum það eina af okkar mestu blessunum. Við erum ekki sammála um hvernig eigi að skipta arðinum sem auðlindin skapar og endalausar deilur eru um málið ár eftir ár. Þótt margt hafi tekist vel í sjávarútvegi hér á landi þá vantar enn þá réttlætistilfinninguna um að samfélagið allt njóti góðs af auðlindanýtingunni eins og best verður á kosið. Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar á einstaklega vel við í útfærslu reglna um nýtingu sjávarauðlindarinnar. Auðlindanýting er sjálfbær til lengri tíma ef hún leiðir til jafnvægis þriggja þátta; umhverfisáhrifa, efnahagsáhrifa og samfélagsáhrifa.

Við höfum nú þegar tekið tvö skref af þessum þremur við stjórn fiskveiða. Kvótakerfi var sett á af umhverfisástæðum til að vernda nytjastofnana og það var áhrifaríkt skref frá sjónarhóli umhverfisáhrifa. Það olli hins vegar misrétti milli kynslóða nýrra og eldri útgerðarmanna og hamlaði nýliðun. Nokkrum árum síðar var framsal kvóta heimilað af efnahagsástæðum. Það hefur leitt til gríðarlegrar hagræðingar í greininni. Sú aðgerð hefur hins vegar haft neikvæð samfélagsleg áhrif. Með sölu kvóta er mögulegt að kippa í einni svipan stórum stoðum undan heilu byggðarlögunum eins og nýlegt dæmi úr Þorlákshöfn sýnir. Fólkið í sjávarbyggðunum hefur borið kostnaðinn af hagræðingunni en ágóðinn að mestu runnið til einkaaðila. Og fólki finnst það óréttlátt og deilurnar halda áfram.

Ef gjöld og skattar eru of há er það almennt talið hafa slæm og bjagandi áhrif á samfélög og efnahagslíf. Það er því viðfangsefni stjórnmálamanna að finna jafnvægi milli skattheimtu og þeirrar velferðarþjónustu og útgjalda sem þeim er ætlað að standa undir. Það er hins vegar ein tegund skatta sem hagfræðingar eru almennt sammála um að hafi ekki slæm eða bjagandi áhrif og það eru auðlindaskattar og auðlindagjöld. Það eigum við að sjálfsögðu að nýta okkur. Gallinn getur verið sá að ef hið opinbera handvelur þá sem fá nýtingarréttinn af auðlindinni þá verða sífelldar deilur um það og einnig um auðlindagjöldin ef við stjórnmálamennirnir ákveðum þau.

Þessi vandamál er hægt að leysa hér á landi með útboðum á aflaheimildum. Nýtingarrétturinn ákvarðast með útboðunum og markaðurinn ákvarðar verðið og enginn deilir um það. Á fiskmörkuðum deilir til dæmis enginn um verð eða úthlutun. Þar eru allir sáttir að viðskiptum loknum. Á mörkuðum með losunarheimildir bjóða fyrirtæki landsins í kvóta árlega og tekjurnar renna í ríkissjóð. Unga fólkið okkar þarf að taka þátt í útboði á fasteignamarkaði og aleiga þess liggur undir. Markaðslögmálin má virkja til góðs, en það þarf ég varla að útskýra fyrir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra.

Deilurnar í samfélaginu standa um arðinn af auðlindinni. Ef við fáum fyrir auðlindina fullt verð og ef sveitarfélög fá hlutdeild í tekjunum, t.d. í gegnum sóknaráætlun landshluta, og ef stærstur hluti fer til heilbrigðiskerfisins, sem þjónar öllum landsmönnum, tel ég að deilunum lyki. Útboð veiðiheimilda tryggir fullt verð með reglum sem banna eignasöfnun á fárra hendur og tekur tillit til byggðasjónarmiða. Ef við gætum verið viss um að tekjurnar rynnu til uppbyggingar í sveitarfélögunum vítt og breitt um landið og til heilbrigðisþjónustu sem sárlega vantar fjármagn mundi nást sú sátt sem nauðsynleg er um fiskveiðikerfið. Útgerðarmenn þyrftu þá ekki lengur að treysta á að stjórnmálamenn ákveði veiðigjald sem er þeim þóknanlegt og fólkið í landinu fengi notið arðsins af auðlindinni til uppbyggingar í sveitarfélögunum og til almennrar velferðar. Það er réttlátt.