145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

uppboðsleið í stað veiðigjalda.

[12:10]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er enginn að tala um að hætta með aflamarkskerfi eða að fara að innleiða ofveiði á íslenskum fiskstofnum að nýju. Það er enginn að tala um það að hverfa frá markmiðum um sjálfbærni í stjórn fiskveiða. Það er enginn að tala um það að ná markmiðum um hagræðingu í sjávarútvegi þannig að við fáum sem mest fyrir þessa afurð. Það er enginn að tala um þessa hluti. Það er verið að tala um það hvernig heimildirnar, sem eru í eigu almennings í þessu landi, ganga kaupum og sölum.

Það er svolítið merkilegt að formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, skuli ekki hafa meiri trú á mjög þekktu gömlu fyrirkomulagi til að ákveða verð, sem er frjáls markaður. Treystir hann ekki útgerðarmönnum til þess að fara inn á frjálsan markað og standa að verðmyndun þar á markaðstorgi? Er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra virkilega þeirrar skoðunar að það sé betra að ríkisvaldið ákveði þetta verð? Er hann orðinn þvílíkur talsmaður ríkisafskipta? Mér finnst þetta mjög merkilegt.

Lítum á staðreyndir málsins í þessu. Útgerðin í Færeyjum, í útboði á þorskkvóta í Barentshafi, borgar 62 kr. á kílóið í þessu útboði. Við erum að innheimta hér með veiðigjöldum held ég 11 kr. á kílóið. Þetta er fimmfaldur munur. Það eru dæmi um rökþrot í þessu að segja: Þarna voru ekki margir aðilar sem buðu í, þetta var þorskkvóti á Barentshafi, fyrir norðan Noreg sko, þetta er í Norður-Íshafi. Það eru ekkert mjög margir hér heldur sem mundu bjóða í þann þorskkvóta, held ég. Það eru ekki allir útgerðarmenn sem eru í þeirri stöðu að fara alla leið þangað með skipin sín. Þannig að auðvitað voru færri sem tóku þátt í þessu útboði.

En skoðum makrílinn. Þar eru fleiri sem geta tekið þátt. Auðvitað er líka hægt að hanna útboðin þannig að meiri dreifing sé í því hverjir geta fengið kvótann. Færeyingar (Forseti hringir.) fá 66 kr. í útboði á frjálsum markaði á makrílkvóta. Við ætlum að taka 2,78 kr. Þetta er 25 faldur munur. (Forseti hringir.) Þetta er bara frjáls markaður sem er að gera þetta fyrir Færeyinga. Af hverju hefur ráðherrann ekki trú á því að það sé hægt hér?