145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

þjóðgarður á miðhálendinu.

[15:05]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að þetta mál er tekið hér á dagskrá þó að ég verði að segja að ég undrast nokkuð þau orð sem hér voru látin falla, vegna þess að ég hefði talið að hv. þingmaður væri bara ánægð með að ég skipaði þverfaglega nefnd með ótal hagsmunaaðilum til að skilgreina og skoða betur það sem þarf að gera og skila mér, að mig minnir, 15. nóvember nk. Þá er bara mjög eðlilegt í kjölfarið á slíkri vinnu, sem þá væri búið að greina og kortleggja enn frekar það sem liggur undir því að geta stofnað svo stóran þjóðgarð á Íslandi, að hægt væri að leggja slíkt fyrir Alþingi.

Það eina sem mér finnst hægt að gagnrýna er að slík nefnd hafi ekki farið fyrr af stað, en það er að ýmsu að hyggja í umhverfisráðuneytinu sem og öðrum ráðuneytum. Að þessu var unnið og við þurftum að fá frá öllum þessum mörgu aðilum sem við settum í nefndina tilnefningar og þetta hefur tekið sinn tíma, en nefndin er að fara af stað og ég held að hv. þingmaður ætti bara að hlakka til að heyra þær niðurstöður.