145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

þjóðgarður á miðhálendinu.

[15:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra tveggja spurninga, hvort ætlunin sé að eiga samráð við Alþingi um þetta mál og hvort hæstv. ráðherra styðji þá tillögu sem hér er inni þriðja þingið í röð, hvort ekki væri þá ráðlegt að afgreiða þá tillögu meðan þingið starfar. Hæstv. ráðherra kaus að svara hvorugri þessara spurningu. Ég tók fram í ræðu minni að jákvætt væri að ráðuneytið væri að skoða þessi mál. En ég gagnrýni það, í ljósi þess að þetta mál hefur verið til umræðu á Alþingi, mælt hefur verið fyrir tillögunni ítrekað og ég man ekki eftir að hæstv. ráðherra hafi tekið þátt í þeim umræðum, og því spyr ég aftur hvort ekki sé eðlilegt að eiga samráð við Alþingi um þetta stóra mál þannig að vilji löggjafans liggi fyrir áður en lagt er af stað í slíka vegferð. Er ekki eðlilegt að afgreiða þá tillögu sem liggur fyrir um stofnun miðhálendisþjóðgarðs?

Ég spyr enn og aftur: Styður hæstv. ráðherra að sú tillaga verði afgreidd hér? Í ljósi þeirra jákvæðu umsagna sem liggja fyrir um málið í hv. umhverfis- og samgöngunefnd held ég að ekki sé óeðlilegt að kalla eftir viðhorfi hæstv. ráðherra um þetta mál og hvort hæstv. ráðherra ætlar sér ekki að eiga (Forseti hringir.) eðlilegt samráð við Alþingi um málið.